Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:20:42 (7277)

1996-06-05 10:20:42# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:20]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Vegna þeirra umræðna sem hafa farið fram um frv. til laga um fjárreiður ríkissjóðs, þá vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl. að ég tel skynsamlegt í ljósi þess að það hefur verið afar gott samkomulag í sérnefndinni sem fjallaði um frv. og unnið þar gott starf, að geyma frv. til haustsins og freista þess að ná jafngóðum anda í frv. til laga um þjónustusamninga, skoða það í tengslum við fyrra frv.

Ég vil vekja athygli á því að það eru viss þáttaskil varðandi ríkisreikninga, fjáraukalög og afgreiðslu þeirra mála núna. Það er hreint borð í þeim efnum sem hefur ekki komið fyrir í mörg ár og það er einmitt tækifæri núna til þess að afgreiða frv. um fjárreiður ríkisins að hausti og freista þess að fella hitt umdeilda frv. þar inn í og ná um þessi mál góðu samkomulagi. Ég legg áherslu á að það takist og að sá góði andi sem var í sérnefndinni sem fjallaði um málið viðhaldist.