Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:30:45 (7284)

1996-06-05 10:30:45# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir skýrslu sem lögð hefur verið fyrir Alþingi um laun og lífskjör á Íslandi, í Danmörku og víðar. Mikil umræða hefur að undanförnu verið um laun og lífskjör á Íslandi og í öðrum löndum, einkum Danmörku. Í þeim samanburði hefur því oft verið haldið á lofti að lífskjör hér á landi standi þeim sem aðrar þjóðir búa við langt að baki. Vegna þessara fullyrðinga fór ég þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún tæki saman efni um þetta mál þar sem leitast væri við að gefa sem réttasta og sannasta mynd af lífskjörum okkar og annarra þjóða. Þetta taldi ég mikilvægt vegna villandi umræðna um þessi efni á síðasta ári, ekki síst í tengslum við meintan landflótta. Þar var gjarnan dregin upp afar dökk mynd af lífskjörum hér á landi, jafnvel svo að á stundum minnti það mann á svonefnda agenta sem riðu um héruð á seinni hluta síðustu aldar og hvöttu hvern sem gat til að flytja til nýja heimsins. Að auki barst mér síðan skýrslubeiðni frá Alþingi um muninn á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku. Eins og kunnugt er stóð Alþb. á bak við þá beiðni. Ég taldi eðlilegt að fela Þjóðhagsstofnun að gera þessa skýrslu. Nú liggur umrædd skýrsla fyrir og hefur verið lögð fram hér á Alþingi.

Eðli málsins samkvæmt er ljóst að svona samanburður verður ekki tæmandi og aldrei vafalaus. Því verður að líta á skýrsluna sem innlegg í umræðuna fremur en endanlegar og óyggjandi niðurstöður. Skýrslan staðfestir að Íslendingar búa við góð lífskjör og ætti sú staðreynd ekki að koma neinum á óvart. Öll þau helstu kennileiti sem hagfræðingar líta til um alþjóðlegan lífskjarasamanburð staðfesta þetta. Það fyrsta sem þeir líta til er landsframleiðsla á mann. Þannig var landsframleiðsla á mann árið 1994 3,4% meiri hér á landi en að meðaltali í aðildarríkjum OECD og 7,6% meiri en að meðaltali í ESB. Á þann kvarða erum við í 11. sæti meðal þjóða heims, á milli Frakklands og Þýskalands en langt á undan Finnum og Svíum sem eru í 17. og 19. sæti. Það er raunar ekki langt síðan Svíþjóð var hið fyrirheitna land þar sem öllu átti að vera betur farið en hér hjá okkur. Danir eru hins vegar í 6. sæti. Það vekur athygli hversu vel að vígi við stöndum í þessum lífskjarasamanburði þegar kemur að ýmsum eignum. Hér er íbúðarhúsnæði rýmra en annars staðar óvíða eru fleiri fólksbifreiðar, litasjónvörp og myndbandstæki á íbúa en hér gerist. Heilbrigðisþjónustan, sem mikið hefur verið rædd hér í þingsölum, fær ágætiseinkunn hvernig sem á er litið. Það er mikilvægt að fá þetta staðfest í öllum þessum tölum. En við sjáum þetta líka sjálf og finnum þegar við ferðumst til annarra landa að velmegun er hér mikil og almenn. Hins vegar, og úr því skal ekki dregið, vinnum við lengri vinnudag en aðrar þjóðir. Það fer ekki á milli mála.

Til marks um mikla vinnu er bæði mikil atvinnuþátttaka og langur vinnudagur. Fullvinnandi fólk á Íslandi vinnur að meðaltali 50 klst. á viku en aðeins 39 í Danmörku. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að hér á landi hefur lengst af verið næg atvinna eða því sem næst næg atvinna. Sömu sögu er ekki að segja frá Danmörku né raunar frá flestum öðrum þjóðum sem við kjósum að bera okkur saman við.

Vísbendingu um verðmætasköpun má fá með því að skoða landsframleiðslu á hverja unna stund. Þegar þetta er skoðað í alþjóðlegu samhengi kemur í ljós að framleiðni er lítil hérlendis. Það er afar skýrt í þessari skýrslu að tímakaup á Íslandi er lægra en í flestum öðrum aðildarríkjum OECD vegna lágrar framleiðni. Tímakaup í dönskum iðnaði, en þar er það hæst, er t.d. 55% hærra en í sænskum iðnaði og tvöfalt hærra en í íslenskum. Í þeim samanburði sem tiltækur er um tímakaup og mánaðarlaun meðal OECD-þjóða erum við í 18.--21. sæti en í 20. sæti þegar þjóðum er raðað eftir landsframleiðslu á vinnustund.

Nú þarf að hafa í huga að á viðmiðunarárunum 1993 og 1994 vorum við Íslendingar á botninum í mjög erfiðri efnahagslægð. Hagvöxtur var neikvæður og kaupmáttur launa var lágur í sögulegu samhengi, 16% lakari en hann var mestur árið 1987. Hann hrundi sem kunnugt er mest í tíð vinstri stjórnarinnar sem sat 1988--1991. Þá var mesta kaupmáttarhrunið eins og allur almenningur í landinu veit.

Það er mat Þjóðhagsstofnunar að kaupmáttarsveiflan geti verið 10--15% yfir hagsveiflunni. Danir hafa hins vegar siglt lygnan sjó í efnahagsumróti síðustu ára. Hagvöxtur hefur verið 3% að jafnaði á ári undanfarin ár og kaupmáttur hefur því farið vaxandi í áþekkum takti og hagvöxturinn. Kaupmáttur hefur nú á ný vaxið hér á landi og er útlit fyrir 8--8,5% kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna á árunum 1995 og 1996 sem er mun meiri aukning en víðast hvar annars staðar. Jafnframt er útlit gott um hagvöxt á næsta ári. Þetta verða menn að hafa í huga þegar menn eru að bera saman tölur þar sem vantar kaupmátt upp á 8,5--9%. Þetta þarf allt að vera með í bakgrunninum þegar myndin um laun einstakra stétta er borin saman á milli landa. Dagvinnulaun í Danmörku eru tvöfalt hærri en hér í mörgum stéttum. En við jöfnum þennan mun annars vegar með eftirvinnu en hins vegar með lægri tekjusköttum.

Þegar upp er staðið er munur á ráðstöfunartekjum miklu, miklu minni en framangreindar tölur bera með sér. Þannig voru meðalráðstöfunartekjur í Danmörku 226,9 þús. kr. á mánuði borið saman við 197,4 þús. kr. hér á landi. Munurinn var því á þennan kvarða mælt 14,9%. Þessi munur er ekki meiri en svo að hann geti skýrst af hagsveiflunni sem ég nefndi áðan. Skattbyrðin er miklu þyngri í Danmörku en á Íslandi. Helmingur landsframleiðslu Dana rennur til hins opinbera sem skattar en þriðjungur hér á landi. Byrði beinna skatta er mun þyngri í Danmörku en hér á landi. Meðalheimili í Danmörku greiðir 38% tekna sinna í tekju- og eignarskatta samanborið við 21% á Íslandi. Það er greiddur skattur af hverri krónu launa í Danmörku en skattleysismörk hér á landi voru 57.200 kr. á mánuði. Þegar menn bera saman lægstu laun hér á landi og í Danmörku þá verða menn að hafa þetta í huga, vilji menn vera sanngjarnir og hafa samanburðinn réttan. Jaðarskattar eru mun hærri í Danmörku en hér á landi og hæsti jaðarskattur í Danmörku var þannig 70% sem bera má saman við töluna 46,84 á Íslandi. Margs konar tekjutenging bóta hefur aukist mjög á Íslandi sem og raunar víða annars staðar og er hún mun meiri og brattari á flestum sviðum en í Danmörku. Þannig hafa ýmsar bætur sem standa hinum allra tekjulægstu til boða verið hærri á Íslandi en í Danmörku. Nefna má vaxtabætur, barnabætur og barnabótaauka. Tekjutryggingin er hins vegar það brött hér á landi að bætur til fólks með lágar meðaltekjur og þaðan af hærri eru mun minni en í Danmörku. Þá verða menn á ný að minnast þess að það er borgaður skattur af hverri krónu í Danmörku en ekki hér. Að öllu samanlögðu geta Íslendingar nokkuð vel unað við þann hlut sem þeir hafa í þessum lífskjarasamanburði þótt sjálfsagt sé að sækja fram í þeim efnum. Það er nákvæmlega það sem menn eru að gera nú. Kaupmátturinn er að aukast um 8,5% sem er mesta kaupmáttaraukning sem við höfum lengi horft framan í. Og það sem best er: Það er kaupmáttaraukning sem er grundvöllur fyrir, innstæða fyrir og sem stenst.

Í því skyni að tryggja að áfram verði haldið á þessari braut er mikilvægast að varðveita áfram stöðugleikann í landinu og jafnvægi í þjóðarbúskapnum, stuðla að framförum og aukinni framleiðni jafnt í atvinnulífinu sem opinberum búskap. Þegar öllu er á botninn hvolft, hvernig sem talað er, er ljóst að aukin framleiðni er eini öruggi grunnur bættra lífskjara. Ég vek athygli, herra forseti, á þessum þáttum og hvet menn til þess í þessari umræðu að gæta sín á því í öllum samanburði að grundvöllur samanburðarins er 1993 þegar Íslendingar eru á botni kreppu sem nú er séð fyrir endann á og það skekkir alla myndina. Það eru margir þættir sem skapa óvissu og geta skekkt þá mynd sem menn horfa á, til að mynda eins og mæling á vinnutíma. Í því sambandi má nefna það að ómæld yfirvinna, sem í mörgum tilvikum er ekki unnin eins og menn vita, er mæld hér sem langur vinnutími og hækkar töluna um lengd vinnutíma. Þá eru t.d. kaffitímar og matartímar mældir með öðrum hætti hér en í Danmörku. Allt skekkir þetta myndina. Auðvitað hlýtur það hins vegar að vekja mikla athygli þegar menn tala um lág laun að á þessum lágu launum samkvæmt skýrslunni sem menn tala um hefur Íslendingum tekist að eignast fleiri bíla, stærra húsnæði, og fleiri tæki en þeir sem betur hafa það samkvæmt skýrslunni og er það einkar athyglisvert.