Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:27:11 (7290)

1996-06-05 11:27:11# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er mjög merkileg skýrsla til umfjöllunar. Þó fannst mér kannski ekki síður merkilegar þær ræður sem hér hafa verið fluttar af hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. En ég mun koma að því síðar hvað það er sem mér þótti merkilegt í því efni.

Ég vil byrja á því að þakka formanni Alþb., hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, fyrir að hafa haft frumkvæði að því að þessi skýrsla var unnin. Ég vil byrja á því að spyrja að því hvers virði samanburðarkönnun af þessu tagi er. Gerum við könnun á því hvernig við stöndum í samanburði við aðrar þjóðir og sníðum síðar kröfur okkar í samræmi við niðurstöðurnar? Nei. Auðvitað taka menn mið af öllum aðstæðum og bera sig saman við það sem samanburðarhæft er. Einstaklingur í Sómalíueyðimörkinni gerir ekki sömu kröfur um efnaleg lífsgæði og einstaklingur í Stokkhólmi eða einstaklingur í Reykjavík. En einstaklingur á hinu Evrópska efnahagssvæði og hinu evrópska atvinnusvæði skoðar hvaða kjör eru í boði í hinum einstöku hornum þess og þegnar ríkja sem búa við sambærilegan efnahag gera kröfur um sambærileg kjör. Efnahagur Íslendinga og efnahagur Dana er um margt sambærilegur og því eðlilegt að við miðum okkar lífsgæðakröfur í samræmi við það.

Stjórnvöld hér á landi hafa verið upptekin við að samræma allt sem lýtur að fyrirtækjum, hagsmunum fyrirtækja og hagsmunum fjármagns. Nú er komið að því að samræma það sem lýtur að hinum vinnandi manni og er til þess fallið að bæta kjör hans og kjör fjölskyldunnar. Að sjálfsögðu eigum við að gera kröfur í samræmi við það sem við teljum vera rétt og eðlilegt en við hljótum engu að síður að draga lærdóm af því sem gerist með öðrum þjóðum. Þessi kjarasamanburður sem þingflokkur Alþb. og óháðra óskaði eftir var til þess gerður að fá fram upplýsingar um kjör launafólks hér á landi í samanburði við það sem gerist með Dönum í því skyni að varpa ljósi á aðstæður hér og fá á þær nýtt sjónarhorn.

[11:30]

Héðan hefur streymt fólk til Norðurlanda, þar á meðal til Danmerkur í atvinnuleit. Þegar fjölmiðlar hafa leitað til þessa fólks og spurt um hagi þess er augljóst hvað það er sem menn leggja einkum upp úr. Það er fjölskyldulífið, það tóm sem fólki gefst til að vera samvistum hvert við annað, laust undan hinu íslenska atvinnuoki. Hér á landi, og það kemur fram í þeirri skýrslu sem við erum að ræða, vinnur fólk að meðaltali um 50 klukkustundir á viku, en í Danmörku um 39 stundir. Það þýðir að Íslendingurinn vinnur að meðaltali einum og hálfum mánuði lengur á ári en Daninn. Gögn byggð á skattframtölum sýna að tekjur hjóna með börn í Danmörku eru að jafnaði um 39% hærri en á Íslandi. Um er að ræða meðaltal allra fjölskyldna óháð samsetningu þeirra, stærð og atvinnuþátttöku. Danska fjölskyldan hefur sem sagt um 40% hærri tekjur á ári auk þess að hafa einn og hálfan mánuð í frístundir umfram íslensku fjölskylduna.

Í skýrslunni er vitnað til upplýsinga sem sænska atvinnurekendasambandið, SAF, hefur tekið saman um tímakaup í iðnaði í 20 löndum. Þar kemur fram m.a. að laun í Danmörku eru nærri tvöfalt hærri en á Íslandi.

Hæstv. forseti. Tími minn er að verða búinn og mun vera búinn, en ég vil að lokum segja: Á sama tíma og fólk leitar héðan til að losna undan yfirvinnuokinu er verið að lögfesta hér á landi kvöð og skyldu á íslenskt launafólk um að sinna yfirvinnu. Það er lögbundið hér á landi. En það sem ég vildi einkum hafa sagt, hæstv. forseti, í tilefni þeirra orða sem féllu af munni hæstv. forsrh. og viðskrh. að þeir líta svo á að leiðin til að bæta kjörin hér sé að auka arðsemi í atvinnulífinu. Leiðin er að skipta gæðunum á réttlátari máta en gert er. Og hér síðar í dag á að ganga til atkvæða um frv. ríkisstjórnarinnar um að aflétta sköttum af efnamesta hluta íslensku þjóðarinnar sem nemur hundruðum milljóna kr. Þannig að við frábiðjum okkur tal af þessu tagi.