Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:38:06 (7292)

1996-06-05 11:38:06# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni hlut lífeyrisþega vegna samanburðar þess sem kemur fram í skýrslu þeirri sem hér er til umræðu.

Ég hef starfað við það undanfarin ár að bera saman hlut lífeyrisþega á Norðurlöndunum, bæði hvað varðar lífeyristryggingar og sjúkratryggingar. Á hverju ári er haldið norrænt almannatrygginganámskeið á Norðurlöndunum til skiptis og þar er þessi vinna unnin. Í stuttu máli hefur niðurstaðan verið sú á hverju ári að lífeyrisþegar, sjúklingar og þeir sem þurfa á almannatryggingakerfinu að halda standa mun verr að vígi á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum og þar er Danmörk meðtalin.

Vegna orða sem fallið hafa um upplýsingar úr þessari skýrslu um jaðarskattana, þar sem sagt er að jaðarskattarnir séu mun hærri í Danmörku en hér, vil ég geta þess vegna lífeyrisþeganna að jaðarskattar, þ.e. tekjutenging lífeyrisgreiðslna á Íslandi, jaðarskattar á lífeyrisþega eru á stóru bili 70% á lífeyrisþega og fara alla leið upp í 100%. Ég vil því leiðrétta það sem kemur fram í þessari skýrslu og það sem hefur komið fram í máli manna. Íslenskir lífeyrisþegar búa við 70% og oft í 100% jaðarskatt.

Ég vil einnig gagnrýna upplýsingar sem koma fram í skýrslunni á bls. 41. Þar segir að þegar tekið sé tillit til ýmissa hlunninda, niðurfellingar og afsláttargjalda sem lífeyrisþegum stendur til boða komi í ljós að afkoma lífeyrisþega er heldur betri en launþega með sömu tekjur. Svona fullyrðingar er ekki hægt að setja fram á þennan hátt. Það getur vel verið að þetta gildi um lítinn, þröngan hóp. En reglurnar eru mjög strangar og það eru sett mjög stíf skilyrði þannig að þetta er ekki almennt eins og stendur í skýrslunni.

Ég vil einnig tala um það sem þarf að gera í okkar velferðarkerfi. Það þarf að endurskoða það algerlega frá grunni því að það er í raun fátækragildra. Þeir sem lenda í því að missa starfsorkuna og þurfa að treysta á velferðarkerfið eiga mjög erfitt með að komast út úr kerfinu aftur. Þeir eru lentir í ákveðinni fátækragildru og einnig er lífeyriskerfið fjölskyldufjandsamlegt. En þar sem tíma mínum er nú lokið og ég hef ekki tíma til að fara nánar út í að skýra orð mín vonast ég til þess að það væri hægt að fara út í það ef opinber fjölskyldustefna kemst einhvern tíma á dagskrá eða til umræðu í þinginu. Ég vil enda mál mitt á því að endurtaka spurningu sem komið hefur fram í umræðunni og þar sem a.m.k. einn stjórnarliði, hv. þm. Jón Kristjánsson, á eftir að taka til máls vil ég gjarnan fá að heyra það frá honum hvers vegna opinber fjölskyldustefna hefur ekki fengist á dagskrá, mál sem var lagt fram í þinginu 18. mars. Hefði ekki verið ástæða til að taka það til umræðu?