Félagsleg verkefni

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:59:51 (7298)

1996-06-05 11:59:51# 120. lþ. 161.11 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:59]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur til formanns allshn. fyrir þá góðu og hröðu vinnu sem á þessu máli hefur orðið. Ég vil líka þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál til umræðu á Alþingi og gefa því umfjöllun af þessu tagi.

Við höfum öll orðið vitni að því hvernig stofnanir sem reknar eru í þágu fatlaðra barna og fullorðinna hafa orðið fyrir barðinu á niðurskurði, sérstaklega þegar þær heyra undir stórar stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir þar sem þessi verkefni eru ekki talin eiga heima. Tilhneigingin er því sú að ýta þeim út af borðinu og þess vegna verður oft óvissa um heimili fjölda manna. Þetta er eitt verkefni sem er brýnt að taka á.

Mig langar til þess að gera að umtalsefni líka í þessu samhengi, herra forseti, að það eru auðvitað fleiri verkefni sem verða fyrir skörun á milli ráðuneyta, sérstaklega á milli heilbr.- og trmrn. og félmrn. Stórir þættir í almannatryggingalöggjöfinni eru félagslegs eðlis eins og við vitum, enda er búið að skipta þeirri löggjöf upp í tvo þætti. Annar þátturinn er auðvitað félagslegi þátturinn. Því vakna oft upp spurningar um það hvort þessi þáttur í tryggingalöggjöfinni mundi e.t.v. eiga betur heima undir verksviði félmrn. Ég tel fyllilega ástæðu til þess að það verði skoðað í þeirri nefnd sem nú endurskoðar lög um almannatryggingalöggjöfina hvort það beri ekki að taka á þessu máli þar og koma með tillögur um tilfærslu á þessum þáttum almannatryggingalöggjafarinnar eða einhverju leyti til félmrn.

Við höfum líka í þessu samhengi oft verið að ræða kostnað við heilbrigðisþjónustu og þar hafa ekki alltaf verið bornir saman réttu hlutirnir. Við erum að bera okkur saman við önnur lönd eins og við höfum verið að gera í morgun, herra forseti, varðandi lífskjör samanborið við Danmörk. En við berum líka saman útgjöld til heilbrigðisþjónustunnar við þessi lönd og þar erum við ekki að bera saman sömu hlutina. Í þessum samanburðarlöndum okkar er t.d. öll þjónustan við aldraða talin til félagslegrar þjónustu, en hér flokkast hún sem heilbrigðismál. Ég mun því taka það upp í þessari nefnd sem endurskoðar almannatryggingalöggjöfina hvort ekki beri að skoða hlutina í þessu samhengi líka þar eins og hér er verið að gera í tillögu hv. þm.

Að lokum, herra forseti, þakka ég þeim sem hafa komið að þessu máli og vona að það fái skjótan framgang.