Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:50:27 (7310)

1996-06-05 13:50:27# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, Frsm. minni hluta SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:50]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum láta í ljós ánægju mína með þessar málalyktir, þakka hæstv. sjútvrh. og meiri hluta sjútvn. fyrir frumkvæði þeirra að því að það tókust sættir um afgreiðslu málsins og lýsi ánægju minni með það. Það eina sem ég vildi lýsa áhyggjum af er það að mér finnst nokkuð hátt gjald sem taka þarf vegna eftirlits með skipum á Flæmingjagrunni. Mér er það hins vegar fyllilega ljóst að þarna er um að ræða gjaldtöku í samræmi við samþykkt sem Ísland á aðild að þannig að ekki verður undan því vikist að framfylgja þeirri samþykkt. Það er hins vegar gert ráð fyrir því í greininni eins og hún er að það verði unnt að lækka þetta gjald, náist um það samkomulag að draga úr kostnaði við þetta eftirlit. Ég vona að það takist og skora á hæstv. sjútvrh. að framfylgja því sem ég tel vera vilji hans, þ.e. að reyna að ná samkomulagi um það að þessi mikli kostnaður við eftirlitið geti lækkað. Ég á satt að segja von á því að heyra eitthvað frá honum í þessari umræðu.

Ég lýsi sem sé ánægju minni með þá niðurstöðu sem náðst hefur. En gjaldtökumálið er þannig vaxið að við vitum ekki endanlega um lyktir þessa því ekki hefur á það reynt hvort ráðherra tekst, ef hann leggur sig fram, að ná gjaldtökunni eitthvað niður þannig að hún verði ekki jafnþungur baggi og gert er ráð fyrir í þessu frv. að hún verði. Því treysti ég mér ekki til þess að greiða atkvæði með greininni eins og hún er orðin, en mun sitja hjá. En ég ítreka að ég er mjög sáttur með þá niðurstöðu sem orðin er og ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra og meiri hluta sjútvn. fyrir að hafa tekið tillit til þeirra ábendinga og óska sem komu fram í gær frá stjórnarandstöðunni í málinu.