Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:56:20 (7312)

1996-06-05 13:56:20# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:56]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir álit sjútvn. með fyrirvara fyrir hönd míns þingflokks og við kjósum að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Engu að síður teljum við að það sé mikilvægt og í raun og veru þakkarvert að hæstv. sjútvrh. skuli hafa beitt sér fyrir lausn á málinu núna við þinglokin með þeim hætti sem hann gerir. Ég tel að það sé í raun og veru til fyrirmyndar að menn og ráðherrar reyni þannig að greiða fyrir málum. Hins vegar verð ég því miður að rifja það upp að þetta var sú grein í frv. sem við alþýðubandalagsmenn gerðum helst athugasemdir við og okkar fulltrúi í sjútvn. en það er sú grein sem eftir lifir í málinu. Fyrir þeirri afstöðu sinni færði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ákveðin rök við umræðu við málið sem ég ætla ekki að endurtaka og hv. þingmenn þekkja. En miðað við allar aðstæður teljum við að þessi lending sé þolanleg, enda vinni ráðherra að því að lækka kostnað við eftirlitið eins og lögð var áhersla á við umræður í nefndinni í morgun. Hv. formaður nefndarinnar hét okkur því að koma þeirri sérstöku bón á framfæri við hæstv. sjútvrh. og ég hélt að hann mundi kannski blanda sér í þessar umræður með það erindi.