Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 14:04:53 (7315)

1996-06-05 14:04:53# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[14:04]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram um veiðieftirlit á Flæmingjagrunni er rétt að rifja það upp að hér er um að ræða fjölþjóðlega ákvörðun sem tekin er af fiskveiðinefnd NAFO, Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar. Það er mikilvægt að hafa í huga vegna þess að mér hefur stundum fundist þess misskilnings gæta að hér væri um að ræða tvíhliða samkomulag milli okkar og Kanada, að hér er um að ræða fjölþjóðlega ákvörðun innan þessarar stofnunar. Ákvörðunin var tekin sem bráðabirgðaákvörðun um fyrirkomulag eftirlits og skyldi gilda í tvö ár og kemur þá til sjálfstæðrar ákvörðunar hvernig með framhaldið verður. Þetta ár er fyrra árið af tveimur.

Hv. 4. þm. Austurl. gerði í umræðunni í gær mjög glögga grein fyrir aðdraganda þessarar ákvörðunar, en hún á rætur fyrst og fremst að rekja til þess fiskveiðistríðs sem var á milli Kanada og Evrópusambandsins. Þar höfðu skip Evrópusambandsins orðið uppvís að mjög slæmri umgengni um fiskveiðiauðlindir, röngum upplýsingum um afla og þar fram eftir götunum. Því varð þessi niðurstaða sem bæði Evrópusambandið og Kanada fengu samþykkta á ársfundi fiskveiðinefndar NAFO. Það er rétt að það komi skýrt fram að íslensk stjórnvöld andmæltu því mjög sterklega að þetta gilti og sérstaklega um rækjuveiðarnar. Okkar afstaða hefur verið sú að það væri fráleitt að láta eina reglu gilda um allar veiðar í þessu efni. Það kynnu að vera meiri rök fyrir því að hafa meira eftirlit með veiði skipa sem eru að veiða úr mörgum tegundum í einu heldur en veiðar úr rækjustofni þar sem menn þar að auki eru með ristar í trollunum sem skilja smárækjuna frá og í sjálfu sér er engin hætta á því að menn séu að veiða meðafla eða smárækju. En það hefur fyrst og fremst strandað á afstöðu Evrópusambandsins að viðurkenna þessa sérstöðu vegna þess að Evrópusambandið hefur sagt að ef það eigi að undirgangast slíkar reglur gagnvart þeim veiðum þar sem það á mestra hagsmuna að gæta, þá verði eitt yfir alla að ganga. Þarna koma því margar þjóðir að þessari ákvörðun.

Á fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkja sem haldinn var á Íslandi fyrir nokkrum dögum tók ég þetta mál sérstaklega upp og gerði grein fyrir afstöðu okkar og því að við mundum halda áfram að berjast fyrir því að eftirlitskostnaður færi ekki úr hófi fram. Sérstaklega var á það bent varðandi Flæmingjagrunnið að við teldum eftirlitsmann um borð í hverju skipi of mikið eftirlit sem byggðist ekki í raun og veru á neinum raunhæfum forsendum eða rökum fyrir eftirliti. Bæði af hálfu Kanada og Evrópusambandsins var fyrri afstaða ítrekuð, en að minni tillögu samþykktu ríkin að setja upp starfshóp sem á að kanna sérstaklega nýja tækni, gervihnattatækni, varðandi eftirlit og gera skýrslu til ráðherranna fyrir hæsta fund þeirra. Okkar markmið með þessu er fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar að reyna að hagnýta þessa nýju tækni til þess að reyna að ná fram samstöðu um samræmdar eftirlitsreglur á veiðistjórnunarsvæðunum og innan stofnananna hér í Atlantshafinu sem hafa það verkefni með höndum að stýra veiðunum. Og í annan stað að reyna að nýta þessa nýju tækni til þess að draga úr eftirlitskostnaði.

Jafnframt varð það að samkomulagi milli mín og sjútvrh. Kanada að við mundum fela embættismönnum ríkjanna að ræða saman fyrir næsta ársfund NAFO sem verður í haust í Moskvu til þess að ræða þau sjónarmið sem við höfum sett fram í þessu efni. Það er alveg ljóst að af hálfu íslenskra stjórnvalda verður mjög markvisst unnið að því að ná árangri í þessu. En ég minni enn og aftur á að hér er um fjölþjóðlega ákvörðun að ræða og sú ákvörðun sem tekin var gildir til tveggja ára. Í sjálfu sér eru öll skip undir sömu sök seld í þessu efni. Kanadísk skip, færeysk og norsk þurfa að greiða þennan eftirlitskostnað sjálf. Að vísu munu Færeyingar kosta þetta eftirlit fyrir sín skip. En samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, þá borga bæði kanadísk og norsk skip a.m.k. þennan eftirlitskostnað sjálf þannig að í sjálfu sér ætti það ekki að raska samkeppnisgrundvellinum.

Aðalatriðið er það að við veiðieftirlit verði ekki settar slíkar reglur sem í sjálfu sér megi teljast tæknihindranir. Það er miklu skynsamlegra að ná samkomulagi um ábyrga stjórnun á veiðunum og taka þær ákvarðanir á grundvelli mats á ástandi stofnanna og mats sérfræðinga á því hvernig þeir verða best nýttir til lengri tíma litið. Það eru miklu vænlegri leiðir til skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar. Ég tel að Ísland eigi ávallt að vera reiðubúið til samninga á þeim forsendum, en jafnframt að keppa að því að koma í veg fyrir að eftirlitsreglur verði í raun tæknilegar hindranir til þess að nýta stofna. Við munum vinna að því hér eftir sem hingað til og ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir því hvernig við höfum staðið að því að koma þeim málum á framfæri og munum vinna að því á næstunni.