Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:17:30 (41)

1995-10-05 11:17:30# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það mætti ætla við að hlýða á hæstv. heilbrrh. að það mál sem hér um ræðir sé nýtt af nálinni og hefði fengið hér tiltölulega litla umfjöllun á hinu háa Alþingi og þyrfti þess vegna að gaumgæfa miklum mun betur. Það er auðvitað fjarri öllum sanni. Mér er til efs að önnur löggjöf hafi fengið ítarlegri og lengri umræðu á hinu háa Alþingi á umliðnu kjörtímabili en einmitt frv. til lyfjalaga. Það var rætt á fleiri en einu og fleiri en tveimur þingum og niðurstaðan varð svo á vordögum 1994 eftir maraþonumræður að þingið afgreiddi þetta frv. sem lög frá hinu háa Alþingi.

Einnig er rétt að taka það fram að niðurstaðan varð samkomulag milli þáv. stjórnarflokka og þáv. stjórnarandstöðu. Það var með öðrum orðum tekið tillit að verulegu leyti til ábendinga og óska þáv. stjórnarandstöðu, m.a. þáv. hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur og hv. þm. Finns Ingólfssonar og fleiri hv. þm. Framsfl. sem létu nokkuð til sín taka við þessa umræðu. Með öðrum orðum, það er rangt sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum nú upp á síðkastið að þetta mál hafi verið þvingað í gegn eins og sagt var. Það er með öllu ósatt.

Hæstv. heilbrrh. hefur látið svo um mælt að þetta hafi verið tekið hér út með töngum á sínum tíma og þess vegna þurfi nú að sporna við og gefa sér tíma og rúm. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að þetta er ósatt. Þetta mál var mjög vel gaumgæft, fékk ítarlega umræðu og það er fullkomlega fráleitt að menn ætli að byrja á stafrófinu hér upp á nýtt.

Auðvitað er líka full ástæða til þess að staldra alveg sérstaklega við hlut annars stjórnarflokksins, Sjálfstfl., í fráfarandi ríkisstjórn í þessu efni. Flestir hv. þm. hans studdu þetta frv. af heilum hug og lögðu mikið á sig til þess að það næði fram að ganga. Sérstaklega vil ég nefna til sögu hv. þáv. og raunar núv. formann þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Geir H. Haarde sem lagði sig mjög fram um að frv. næði fram að ganga og yrði að lögum frá Alþingi. Það kemur mér því satt að segja ákaflega mikið á óvart ef satt er að þingflokkur Sjálfstfl. hafi skyndilega kúvent í þessu máli og látið það yfir sig ganga og samþykkt það að hæstv. heilbrrh., ráðherra Framsfl., fengi til þess leyfi að leggja málið fram með þeim hætti sem hér um ræðir. Ég vil a.m.k. leita eftir svörum við því hvað hafi í raun breyst í hugum hv. þm. Sjálfstfl., þingmanna á borð við hv. þm. Árna M. Mathiesen, hv. þm. Sturlu Böðvarsson sem gerir það að verkum að þeir hafa núna á haustdögum 1995 fengið allt í einu allt aðra sýn þegar kemur að frelsi varðandi lyfjaverð og lyfsöluleyfi. Hvað hefur breyst á þessu eina og hálfa ári sem gerir það að verkum að þeir ganga í björg með Framsfl. til þess að þæfa þetta mál og tefja á alla lund?

Það er síðan alveg sérstakur kapítuli, virðulegi forseti, öll sú málsmeðferð sem hér er lögð á borð fyrir hið háa Alþingi og sá misskilningur sem æ ofan í æ má lesa úr yfirlýsingum hæstv. heilbrrh. er alveg skelfilegur fyrir stjórnsýslu þessa lands. Það er endurtekið hér æ ofan í æ að aðeins hluti löggjafarinnar hafi verið samþykktur. Með leyfi forseta vil ég vísa til viðtals í Viðskiptablaðinu þar sem hæstv. ráðherra svarar því orðrétt þannig:

,,Í fyrsta lagi er þetta frumvarp samþykkt í tveimur áföngum.`` Frv. var auðvitað samþykkt í einum áfanga, það er gildandi löggjöf í gangi, það er hins vegar bráðabirgðaákvæði um að einstakir þættir löggjafarinnar taki gildi á mismunandi tímum. Þetta er auðvitað allt annar hlutur, hæstv. ráðherra. Með öðrum orðum, það eru gildandi lög í landinu og ráðherrum eins og fólki almennt ber auðvitað að lúta þeim lögum og vinna samkvæmt þeim. Það er rauði þráður málsins og grundvallaratriði í allri umræðunni og það skiptir bara nákvæmlega ekki nokkru máli hvort ríkisstjórn eða ráðherra hafi uppi áform um það á einhverju stigi máls, á einhverjum tímum, að hugleiða breytingar á þessum lögum. Það hefur bara nákvæmlega ekkert lagalegt gildi. Eða er það skoðun hv. þm., virðulegi forseti, og Alþingis að um leið og einstakir ráðherrar láta sér það um munn fara að þeir íhugi nú að gera ákveðnar breytingar á tilteknum lögum í landinu sé það ígildi þess og ávísun á það að fólk í landinu, þingmenn þar á meðal, fari að laga sig að óljósum hugmyndum sem ráðherra frá einum tíma til annars hafi um það að breyta lögunum? Það mál sem hér um ræðir er einmitt mjög lærdómsríkt í því sambandi því að eins og ég gat um hér í upphafi tók það dálítinn tíma að gera þær breytingar sem hin nýja löggjöf felur í sér. Þýddi það þá í raun 1991 eða 1992 þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þá ráðherra heilbrigðismála, lagði þetta mál fram fyrst að allir ættu að fara að laga sig eftir þeim nýja veruleika sem birtist í frv. hæstv. ráðherra á þeim tíma? Nei, auðvitað ekki. Það eru gildandi lög í landinu og þau breytast ekki fyrr en Alþingi hefur gert þær breytingar. Fyrr breytist nákvæmlega ekki neitt, hæstv. heilbrrh., nákvæmlega ekki neitt og þér ber auðvitað skylda til þess að vinna samkvæmt þessum lögum. Ég hlýt að gera kröfu til þess að þú einhendir þér nú þegar strax í dag við að ljúka nauðsynlegum reglugerðum sem þessi löggjaf kallar á, þegar ákveðnir kaflar hennar taka gildi 1. nóv. nk. Þú gerir hinu háa Alþingi nákvæma grein fyrir því á hvaða stigi þessi vinna er í hinu háa ráðuneyti þannig að þessir kaflar taki gildi miðað við þau lög sem gilda í landinu. Eða er það þannig, hæstv. heilbrrh., að þessi vinna hafi öll verið sett á ís? Ber að skilja það svo að vegna þess að hæstv. heilbrrh. hafi komið til hugar að fresta gildistöku þessara ákveðnu kafla hafi öll vinna verið lögð niður í hinu háa ráðuneyti?

Margnefnd nefnd þverpólitískra aðila var eitt af þeim samkomulagsatriðum sem upp komu við afgreiðslu lagafrv. á vordögum 1994. Hún hefur ekki komið saman frá 14. júní sl. og raunar aðeins einu sinni komið saman frá því að ríkisstjórnarskipti urðu. Þá hafi nefndin haldið raunar á tíð fyrri ríkisstjórnar, fyrri ráðherra haldið eina 4--5 fundi. Þeir voru gagnlegir. Að vísu er mér sagt að flokkssystkin hæstv. heilbrrh. hafi ævinlega vantað til þeirrar fundarsetu og það kunni sennilega að skýra að hæstv. heilbrrh. fái ekki fullgildar upplýsingar um það hver áhrif EES, hver áhrif þessara laga, séu á þróun mála á íslenskum lyfjamarkaði. Það kunni að vera hin eina sanna skýring.

Meginmálið er það, virðulegi forseti, og það hlýtur að vera grundvallaratriði í allri umfjöllun um þetta mál að við ræðum það út frá gildandi lögum í landinu og engu öðru. Aðeins til undirstrikunar á því hversu hæstv. heilbrrh. virðist ókunnugt um hvað það er í raun sem henni ber að vinna eftir frá einum tíma til annars þá segir hún í nefndu viðtali við Viðskiptablaðið að ríkisstjórnin hafi samþykkt að gera breytingar á þessum lögum á haustdögum meira að segja. Ekki aðeins hún sjálf heldur líka ríkisstjórnin og þá sé að allt í einu orðið ígildi þess að landsmenn, íbúar í landinu, eigi að laga sig að nýjum veruleika á haustdögum. Svona er þetta bara ekki, hæstv. heilbrrh. Svona ganga mál ekki fyrir sig.

Það er fleira athyglisvert í viðtali Viðskiptablaðsins við hæstv. heilbrrh. sem þörf er á að staldra eilítið við. Hæstv. heilbrrh. fór yfir það í stuttu andsvari áðan að í lögunum er kveðið á um ákveðin skilyrði, ákveðnar umsagnir sem sveitarstjórnum beri að veita þegar umsóknir um lyfsöluleyfi eru annars vegar. Hún kemur aðeins inn á það í þessu nefnda viðtali. Hún segir, með leyfi forseta: ,, En þá koma þau skilyrði sem gert er ráð fyrir, þ.e. að viss fjöldi standi að baki hverju apóteki. Niðurstaðan var sú að hvert apótek þyrfti u.þ.b. 5.000 manns.`` Ég staldraði við þegar þegar ég las þetta og hugsaði með sjálfum mér hvar þessa tölu væri að finna í gildandi lögum. Ég finn hana ekki. Það er ekkert aukatekið orð um það að þessi tala skuli vera 5.000 manns. Hver hefur ákveðið það, hæstv. heilbrrh., að þessi viðmiðunartala skuli vera 5.000 manns? Hvaðan hefur sú tala komið? Hver hefur stungið henni inn í koll hæstv. heilbrrh.? Hér segir eingöngu í lagatexta, með leyfi forseta: ,,Við mat umsóknar skal m.a. stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúðinni og fjarlægð hennar frá næstu lyfjabúð.``

Hæstv. heilbrrh. kallaði áðan fram í og óskaði eftir að ég skýrði það nánar hvar hún hefði sagt að þetta mál hefði verið tekið út með töngum á vordögum 1994. Það hittist þannig á að ég er með þetta nefnda viðtal og ég vil upplýsa ráðherra hvar hún sagði þetta ef hún man það ekki sjálf. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Þegar þetta frumvarp var samþykkt frá Alþingi og átti að taka gildi 1. nóvember, þá var því þröngvað fram.``

En hæstv. ráðherra veit auðvitað langtum betur því að eins og ég gat um hér áðan var þetta samkomulagsmál eftir maraþonumræður sem tóku langan tíma á liðnu kjörtímabili.

Það er líka athyglisvert og til umhugsunar sérstaklega fyrir þingmenn Sjálfstfl. hvort þeir eru sammála því mati hæstv. ráðherra sem fram kom hér í inngangi hennar og framsöguerindi um þessa frestunartillögu þar sem hún gerir lítið úr og nánast ekki neitt úr umsögn fjmrn. um hin fjármálalegu áhrif þessara breytinga sem nú verða 1. nóvember nk. Eru sjálfstæðismenn sammála túlkun hæstv. ráðherra um að þetta frelsi í viðskiptum, þetta ákveðna frelsi til ákvörðunar lyfjaverðs, þetta ákveðna frelsi til opnunar lyfjabúða, hafi engin áhrif. Þeir trúðu því og töldu það á liðnu kjörtímabili. En eru þeir líka núna sammála hæstv. ráðherra um að mat fjármálaskrifstofu fjmrn. sé að engu hafandi?

Það er annað merkilegt í því sambandi. Ég rak augun í það í framlögðum fjárlögum, frv. til fjárlaga, að tillögu hæstv. heilbrrh. er einmitt gert ráð fyrir umtalsverðum sparnaði vegna þeirrar nýbreytni sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gerir ráð fyrir. Með öðrum orðum, þar er sagt orðrétt í frv. til fjárlaga, með leyfi forseta:

,,Einnig er talið að samhliða innflutningur lyfja, þ.e. heimild til að flytja inn lyf hvaðanæva að af Evrópska efnahagssvæðinu, muni leiða til aukinnar samkeppni og lægra lyfjaverðs.``

Að vísu vantar nú verðmiðann á þetta hvað hæstv. ráðherra reiknar með að taka inn á þessu í sparnaði en þetta segir okkur auðvitað það að í einu orðinu vill hæstv. heilbrrh. njóta góðs af samkeppninni samkvæmt gildandi lögum á heildsölustiginu og ætlar sér að nýta það til að ná fram sparnaðarmarkmiðum síns ráðuneytis og allt gott og blessað um það. Þegar kemur hins vegar að smásölunni er allt í einu kúvent. Þá má allt í einu ekki láta reyna á þessa samkeppni sem mun sannarlega leiða til lægra verðs til neytenda og lægri útgjalda af hálfu hins opinbera. Ég spyr beint: Hver er eðlismunur á þessu tvennu? Hvers vegna vill hæstv. heilbrrh. ná fram sparnaði og hagræðingu fyrir ríkissjóð og neytendur á heildsölustigi en kúvendir og neitar að leyfa þeim að njóta þess sama þegar kemur að smásölustigi? Er hæstv. heilbrrh. að vernda hagsmuni einhverra, hagsmuni einhverra örfárra apóteka eða lyfsala? Eða hvað er hér á ferð? Hvað er það sem kemur í veg fyrir það að lyfjanotendur njóti lækkunar á verði lyfja á smásölustiginu? Lækkunin hefur þegar komið fram á heildsölustiginu og auðvitað eðlileg krafa þess fólks sem þarf að neyta lyfja að það njóti þess sama þegar kemur að sölu út úr búð.

Hæstv. heilbrrh. gerði það að umtalsefni að það væri merki þess að gildandi löggjöf hefði verið illa unnin að á henni hefðu þrisvar verið gerðar breytingar. Hæstv. ráðherra veit miklum mun betur og veit í hverju þær breytingar hafa verið fólgnar. Það er algert smámál, mál á borð við það sem finna má í hennar eigin frv., nú 2. gr., þar sem gerð er tillaga um að í stað orðanna ,,gefur heilbr.- og trmrn. út``, þá komi: ,,annast heilbr.- og trmrn. útgáfu á``. Eru breytingar á þessum toga merki þess að löggjöfin hafi verið illa unnin, hæstv. ráðherra? Auðvitað er það ekki. Hér eru menn hins vegar að laga sig að breyttum veruleika og ekkert óeðlilegt við það að þeir betrumbæti það smálega sem betur má fara þegar að nýrri framkvæmd kemur.

En meginmálið er auðvitað, virðulegi forseti, hvort menn eru að tala um form og málsmeðferð eða hvort menn eru hér að tala um efni máls. Með öðrum orðum, er það hugmynd hæstv. heilbrrh. ef hún fengi þessa frestun samþykkta á hinu háa Alþingi, að gera grundvallarbreytingar á löggjöf okkar, að fara aftur í gamla farið? Ég spyr þá enn og aftur: Er Sjálfstfl. með í þeirri för? Er tilgangurinn með þessari frestun sá að gera þarna grundvallarbreytingar og stíga nokkur skref aftur á bak inn í fortíðina? Þetta verður að liggja algerlega klárt fyrir. Hún reynir að svara þessu í margnefndu viðtali í Viðskiptablaðinu og segir orðrétt þegar hún er spurð um það hvort hér sé um að ræða frestun til þess að gera á þessu stórar efnisbreytingar. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ég er ekki að tala um neinar grundvallarbreytingar.`` Hvað þýðir þetta svar, hæstv. heilbrrh.? Hvaða vinnu ætlar hún að inna af hendi á vetrardögum í þessu máli þannig að löggjöfin megi breytast til batnaðar að hennar áliti? Hvaða breytingar eru það? Á að taka upp skömmtunarkerfið á nýjan leik? Á ákvörðun um verð á lausasölulyfjum að vera bundið í nefnd og á að loka á það frelsi? Svör við þessu atriði verða auðvitað að koma fram.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er senn að ljúka. Ég beini lokaorðum mínum sérstaklega til hæstv. forseta og árétta það sem ég hef hér sagt áður í þá veru að það þarf að vera mjög skýrt í hugum fulltrúa framkvæmdarvaldsins sem vinna í skjóli Alþingis, hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar, samkvæmt hvaða lögum þeir vinna frá einum tíma til annars. Þeir vinna ekki samkvæmt eigin órum eða eigin löngunum eða eigin vonum heldur ber þeim að vinna samkvæmt því einu sem gildir á hverjum tíma, þ.e. gildandi lögum, og í gildandi lögum segir þar kvitt og klárt að 1. nóv. nk. skuli vera frelsi í verðlagningu lausasölulyfja og 1. nóv. nk. skuli einnig aflétt skömmtunarkerfi því sem gilt hefur um úthlutun leyfa til afhendingar lyfja. Flóknara er málið ekki og ég treysti því, virðulegi forseti, að hið háa Alþingi fylgist með því að hæstv. ráðherra vinni í samræmi við gildandi lög.