Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:38:42 (42)

1995-10-05 11:38:42# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað alveg rétt að þingmenn og ráðherrar vinna samkvæmt lögum. Hv. þm. talaði hér rétt eins og við værum dómstóll og lögin, sem þingmenn ættu að fara eftir, væru óumbreytanleg. Þess vegna erum við hér í störfum að við setjum lög og breytum lögum. Hv. þm. hefur tekið þátt í því með mér að breyta lögum. Gallinn við þessi lög og þessa málsmeðferð í upphafi var sá að því miður var heilbrn. dálítið mislagðar hendur varðandi úrvinnslu þessa frv. Þess vegna þurfti iðulega að gera á því smávægilegar breytingar. Aldrei datt mér í hug að segja: Þetta eru bara lög, við störfum samkvæmt þeim. Auðvitað breytum við lögum ef við þurfum á því að halda.

Meginatriðið í þessu sambandi er að réttaróvissan sé ekki til staðar. Í vor var málum þannig komið að fyrir lá að meirihlutavilji var í þinginu til þess að samþykkja þessa frestun. Það lá líka fyrir að nokkrir ágætir og vaskir þingmenn höfðu um það orð, ekki vil ég segja hótanir, að standa í tali langt fram á sumar ef menn ætluðu sér að knýja þennan meirihlutavilja fram. Meiri hlutinn varð við því af tillitssemi við ákafan minni hluta um að halda ekki umræðunni áfram en það var líka gert með því skilyrði af hálfu meiri hlutans og það var tilkynnt úr þessum ræðustól þannig að engin óvissa væri hjá hagsmunaaðilum að þessu yrði breytt á haustþingi. Það lá algerlega fyrir. Hér er um að ræða formbreytingu og hæstv. heilbrrh. er ekki að kynna neitt annað hér en nákvæmlega það sem við sögðum þingi og þjóð sl. vor. Það er út í hött að fara að hringla með það á nýjan leik. Hér erum við eingöngu að tala um þessa þætti, betrumbæta orðalag eins og oft þurfti að gera hér forðum tíð varðandi þetta sama mál en atriðið er eingöngu varðandi frestunina og það var tilkynnt sl. vor þannig að enginn gengur að því gruflandi að það stóð til.