Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:40:48 (43)

1995-10-05 11:40:48# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var að sönnu fróðlegt og ánægjulegt að hæstv. forsrh. skyldi koma inn í umræðuna og ég hefði kosið það að sumu leyti að hann hefði látið í ljósi, kannski með gleggri hætti, efnislega afstöðu sína og gert þingheimi grein fyrir því hvers vegna honum hefði snúist hugur í efnisatriðum til þessa stóra máls. Það gerði hann því miður ekki en staldraði hins vegar við annan veigamikinn þátt sem ég gerði einnig að umtalsefni í ræðu minni, nefnilega það hvaða lög gilda í landinu frá einum tíma til annars.

Hann notaði, með leyfi forseta, orðalagið ,,að hringla með``. Áður í umræðunni hefur verið vitnað til ágæts lagaprófessors, Sigurðar Líndals. Gott ef sá sami Sigurður hafi ekki á einhverjum tíma verið prófessor hæstv. ráðherra uppi í háskóla. Hann notar nákvæmlega þetta sama orðalag í viðtali við Viðskiptablaðið og segir: ,,Óviðunandi að hringla með lög``. Hann segir einnig, með leyfi forseta: ,,Ég hef ekki kynnt mér málið mjög vel en mitt bráðabirgðasvar yrði að óviðunandi er að vera að hringla með lög. Lög í réttarríki eiga að vera stöðug. Það er eitt af frumatriðum réttarríkis að menn eigi að haga sér á þennan hátt en ekki hinn.``

Eftir stendur þessi spurning og það er auðvitað stór spurning sem Alþingi þarf að svara, ekki í þessu eina máli heldur til lengri framtíðar. Ef það er yfirlýst stefna ríkisstjórnar á einum tíma um að breyta tilteknum lögum ber þá fólki í þessu landi að fara að haga sér samkvæmt því? Eða með öðrum orðum, eru tvenn lög í gildi á sama tíma? Þetta er auðvitað grundvallaratriði. Ég nefndi það sem dæmi áðan að það tók langan tíma að koma í gegn þeirri löggjöf eins og hæstv. forsrh. er kunnugt um. Bar þá þeim aðilum sem fylgdist með og höfðu hagsmuni af þeim breytingum í mínus eða plús að fara að laga sig að því strax 1991 eða 1992 þó að löggjöfin hafi ekki verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi fyrr en vorið 1994. Þetta er auðvitað grundvallarspurning og ég skil hana eftir hér fullkomlega opna. Mín skoðun er sú að það geti aldrei gilt nema ein lög í landinu hverju sinni.