Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:45:43 (45)

1995-10-05 11:45:43# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig merkileg umræða sem hér fram fram um lagaskýringar, á hvaða stigi máls fólk í landinu á að gera sér það í hugarlund hvenær lög kunni að breytast. Við skulum segja sem svo, virðulegi forseti, að þetta frv. til frestunar nái ekki fram að ganga og hér verði ekki þingmeirihluti fyrir þessu frv. ellegar þinginu gefist ekki tóm og tækifæri til þess að ljúka umræðu og umfjöllun um það. Hvers eiga þeir þá að gjalda sem settu allt í stóra stopp á vordögum vegna þess að þeir trúðu yfirlýsingum hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórnar um það að 1. nóv. yrði fresturinn framlengdur? Það má eins snúa þessu máli á þennan veg.

Ég held að við séum, virðulegi forseti, komnir út á býsna hálan ís og það megi toga þetta lengi og teygja þegar við erum komin með ígildi tvennra laga um sömu efni í gildi á sama tíma. En merkilegast var nú kannski það og ég vil eyða örfáum sekúndum í það að hæstv. forsrh., leiðtogi ríkisstjórnarinnar, lýsti því mjög skýrt og skorinort yfir að tillagan snerist ekki um efni máls heldur eingöngu að fresta gildistíma um nokkra mánuði á tilteknum köflum tiltekins lagafrv. Mér hefur hins vegar skilist á hæstv. heilbrrh. að hún hafi á þessu allt annan skilning. Hún ætli að nýta þennan frest sem gerst til þess að taka á efni málsins og taka skref aftur á bak þannig að það er auðvitað alveg ljóst að hið háa Alþingi þarf að fá um það skýr svör hvor túlkunin er rétt. Er hér verið að tala um formsatriði, meðferð máls eða er verið að undirbúa stórfellda breytingu á þessum kafla löggjafarinnar? Hæstv. heilbrrh. hefur talað í þá veru.