Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:48:00 (46)

1995-10-05 11:48:00# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vék að mér í ræðu sinni og spurðist fyrir um afstöðu mína til þess máls sem hér er til umræðu. Vegna þess vil ég segja það að breytingar sem voru gerðar á lyfjalögum voru til þess ætlaðar að ná fram frjálsari viðskiptum og lækkun í lyfjakostnaði. Slík markmið eru afar mikilvæg fyrir okkur og það er alveg ljóst að við verðum að leita allra leiða til þess að haga skipulagi lyfjasölu í landinu með þeim hætti að kostnaður verði sem allra minnstur, bæði fyrir neytendur og ríkissjóð. Þess vegna er afar mikilvægt að löggjöf sé vönduð og vel úr garði gerð og undirbúin þannig að hægt sé að framkvæma hana.

Á vorþingi var frestun til umfjöllunar hjá þingflokkum sem nú er komið fram sem frv. Það lá alveg ljóst fyrir að stjórnarflokkarnir teldu nauðsynlegt að nokkur frestun yrði á því að lögin tækju gildi. Að vísu voru þar nokkuð skiptar skoðanir en það lá alveg fyrir. Afstaða mín var sú að það yrði að fallast á frestun á gildistöku laganna og rökin sem ég tók í þeim efnum voru að heilbrrn., sem hv. þingmenn Alþfl. báru þá ábyrgð á, hafði ekki unnið með þeim hætti að undirbúningi þessa máls að gildistaka gæti orðið. Það er alveg nauðsynlegt að þetta komi fram í umræðunni og hæstv. heilbrrh. getur væntanlega staðfest að heilbrrn. hafði ekki undirbúið málið. Það hafði ekki unnið heimavinnuna sína þannig að lögin gætu tekið gildi eins og til stóð. Afstaða mín til þessa máls byggist á þeim upplýsingum.