Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:11:20 (50)

1995-10-05 12:11:20# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka]

Árni M. Mathiesen:

Hæstv. forseti. Málflutningur hv. þm. Alþfl. hefur um flest verið fyrirsjáanlegur. Þó hefur komið á óvart málflutningur þeirra hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og Guðmundar Árna Stefánssonar þar sem þeir hafa talið að framlagning og flutningur þessa frv. sé merki um allt aðra sýn mína á þennan málaflokk, breyttar hugmyndir mínar um þessi málefni og prófsteinn á afstöðu mína til frjálsrar verslunar. Mér kemur þetta mjög á óvart því að ég taldi satt að segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Guðmundur Árni Stefánsson ættu að þekkja mig að öðru heldur en því að vera sífellt að skipta um skoðun og það sérstaklega í grundvallarmálefnum eins og hér um ræðir. Sérstaklega sárnar mér nú við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann skuli hafa uppi málflutning sem þennan því að ég var nú andlegur leiðsögumaður hans þegar hann uppgötvaði frjálslyndari hlið sálar sinnar.

Hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni ætti kannski enn frekar að vera grundvallarafstaða mín kunnug svo lengi sem við höfum skipst á orðum um pólitík.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. heilbrrh., þá eru í þessu frv. bæði frelsi og höft, en málflutningur minn hefur einmitt verið í þá átt að auka frelsið enn meira heldur en hæstv. heilbrigðisráðherrar Alþfl. á síðasta kjörtímabili treystu sér til þess að leggja til. Því kemur mér það á óvart að tillaga um frestun á framkvæmd þessara þátta um átta mánuði skuli vera grundvöllur ásakana um það að ég hafi skipt um skoðun. Það hefur reyndar hvergi komið fram að gera eigi efnislegar breytingar á þessum lögum, enda mundi ég snúast gegn þeim tillögum ef fram kæmu.

Ég verð hins vegar að segja það, herra forseti, að ég hef þó nokkrar áhyggjur af þessu frv. sem hér er til umræðu og vil ég nú rekja það í nokkrum atriðum. Þegar málið var afgreitt á 117. löggjafarþingi ef ég man rétt, þá var um það samkomulag hvenær þessir tilteknu kaflar ættu að taka gildi. Það varð um það samkomulag við afgreiðslu frv. Það var milli þáv. stjórnarflokka og stjórnarandstöðunnar. Og ég hef ekki séð að það hafi orðið slíkar breytingar á samsetningu hv. Alþingis að það sé grundvöllur til að skipta um skoðun um það hvenær þessir kaflar taki gildi. Ég hefði talið að hv. þingmenn væru enn þá bundnir af þessu samkomulagi þrátt fyrir það að fram hafi farið alþingiskosningar í millitíðinni.

Ég hef einnig áhyggjur af því að starf nefndar, sem átti að athuga áhrif EES-samkomulagsins á lyfjaverð og lyfjakostnað í landinu, hefur verið afar lítið og nánast ekkert nú síðustu mánuði og ég undrast það mjög að svo hafi verið.

Í þriðja lagi finnst mér mjög einkennilegt hver sá dráttur hefur verið á vinnu ráðuneytisins að reglugerðarsmíð í samræmi við þessi lög. Það hefur komið fram og má reyndar vera augljóst að hæstv. heilbrrh. uppgötvaði þetta í aprílmánuði þegar hún tók við starfinu í hinu háa ráðuneyti. En síðan eru liðnir sex mánuðir og að má gera ótrúlega margt á sex mánuðum. Ég hef einnig áhyggjur af því hverjar afleiðingar það hefur ef framkvæmd þessara laga verður frestað, hvaða fordæmi það skapar og það sem nefnt hefur verið að það skapi ríkissjóði skaðabótaábyrgð. En starf nefndarinnar, sem átti að athuga áhrif EES-samkomulagsins, hefur ekki verið mikið, hvorki eftir að hæstv. heilbrrh. tók við né í tíð hæstv. forvera hennar. Drátturinn á vinnunni við smíð reglugerðanna var bæði fyrir og eftir það að ný ríkisstjórn tók við völdum. Það hefur reyndar legið ljóst fyrir að frá því að lögin voru samþykkt hafi þurft að gera talsvert mikilvægar og viðamiklar breytingar á lögum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að gera hefði þurft þessar breytingar vegna mistaka Alþingis. En voru það ekki alveg eins mistök í ráðuneytinu og mistök þáv. hæstv. heilbrrh.? Ef hann heldur enn við það að þessi mistök hafi verið gerð af hálfu Alþingis voru það þá ekki mistök sem hv. fyrrv. form. heilbrrn. ber stærsta ábyrgð á? Af þessu framansögðu má vera ljóst að tafir á vinnslu málsins, mistök í lagasetningunni, mistök í frumvarpssmíðinni í upphafi má að töluverðu leyti rekja til veru Alþfl. í heilbrrn. þannig að málflutningur þeirra er kannski ekki alveg samhljóða niðurstöðu minni. En að þessu öllu samandregnu er ljóst að ég hef áhyggjur af þessu frv. og ég vil að það komi fram að ég hef í engu skipt um skoðun. Ég vildi ganga lengra en hæstv. heilbrigðisráðherrar Alþfl. treystu sér til þess að ganga og ég er enn þá þeirrar skoðunar að við eigum að gera það.

Þegar frv. var afgreitt frá þingflokki mínum hafði ég um það fyrirvara vegna þess að ég var ekki þá og hef ekki enn þá verið sannfærður um að það sé rétt og nauðsynlegt að fresta því að þessir kaflar laganna taki gildi.