Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:19:04 (51)

1995-10-05 12:19:04# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni M. Mathiesen telur sér það til tekna að hafa verið andlegur gúru minn þegar ég uppgötvaði hina frjálslyndu hlið sálar minnar. Ég vil nú upplýsa hv. þm. um það að hún er gegnheil, frjálslyndið smitar þar út í hvern krók og kima. Hins vegar er það jafnan svo að þegar meistarinn sleppir hendi sinni af lærisveinunum geta veður orðið válynd en mér líður snöggtum skár eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. vegna þess að hún staðfestir að það er til dugur í a.m.k. einum hv. þm. Sjálfstfl. og má vel vera að það sé von á fleirum. Ég skal ekkert um það segja á þessu stigi málsins. En það sýnir a.m.k. að það er einn maður sem ætlar ekki að sverja Framsfl. hollustueiða í Sjálfstfl. sem ætlar að standa við það sem hann hefur sagt. Hv. þm. hefur lýst því hér að hann hafi gert fyrirvara við samþykki sitt, fyrirvara við afgreiðslu þingflokksins þegar hann samþykkti frv. hæstv. heilbrrh. Hann hefur jafnframt sagt að hann telji þingmenn bundna af samkomulagi sem var gert í tíð fyrri ríkisstjórnar og af því er einungis hægt að draga þá ályktun að hv. þm. muni greiða atkvæði gegn því frv. sem hæstv. heilbrrh. keyrði fram af svo miklu offorsi. Þetta finnst mér skipta verulegu máli, herra forseti. Það var líka athyglisvert að hv. þm. Árni M. Mathiesen tók í flestum atriðum undir þann málflutning sem m.a. ég og fleiri þingmenn Alþfl. hafa haft uppi í dag varðandi sleifarlag hæstv. heilbrrh. þegar hann kemur að verkstjórn í málinu.

Hann undrast seinagang nefndarvinnunnar sem hæstv. heilbrrh. virðist hafa sleppt lausri á bithaga ráðuneytisins án smala og hann spyr líka: Hvernig stendur á seinaganginum á reglugerðarvinnunni? Það er alveg ljóst, herra forseti, að a.m.k. einn af hinum yngri og frjálslyndari talsmönnum Sjálfstfl. undrast vinnubrögð samstarfsflokksins í málinu. Ég á þá ósk heitasta til Sjálfstfl. og honum til handa að hann hlusti meira á það sem hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur að segja í þessum málum og öðrum.