Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 13:17:28 (62)

1995-10-05 13:17:28# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að árétta fyrirspurn hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ég bið um upplýsingar um það hvort í almannatryggingalöggjöf sé að finna heimild sem kemur í stað 41. gr. núgildandi lyfjalaga. Og ef svo er, hvers vegna er þá ekki tillaga af hálfu hæstv. ráðherra að fella þessa grein út úr lyfjalögum? Hún er þá óþörf. Ég bið um svör.

Í öðru lagi vil ég fá svör við því líka og ég bið um það, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé viðstaddur. --- Herra forseti. Ég get fengið mér sæti á meðan.

(Forseti (RA): Hæstv. ráðherra gengur í salinn.)

Ég þakka fyrir, herra forseti.

Ég vil fá skýrt svar við því eftir hvaða löggjöf er unnið í heilbrn. að undirbúningi gildistöku VII. og XIV. kafla laga um lyfjalög og hvað þýðir það fyrir einstaklinga sem sækja um lyfsöluleyfi á grundvelli þeirra laga? Hverjar viðtökur fá þeir? Hverjar viðtökur hafa þeir fengið? Og að lokum: Eftir hvaða lögum vinnur hæstv. ráðherra í þessum efnum?

Hæstv. heilbrrh. svarar því til hér að það sé þverpólitísk nefnd sem eigi að athuga og gaumgæfa áhrif af EES-samningi, það eigi að nýta næstu átta mánuði til þess að gaumgæfa reynslu af því. Hún svarar því til í margnefndu viðtali í Viðskiptablaðinu að meðal annars skuli nefndin gaumgæfa áhrif af auglýsingum og einnig auknu frelsi í verðlagingu lausasölulyfja. Hvernig í veröldinni á þessi nefnd að gaumgæfa reynsluna af því að ráðherrann er á sama tíma að biðja hér þingheim um að fresta gildistöku þeirra ákvæða? Hvaða reynslu á þessi nefnd að hafa af frelsi í verðlagningu lausasölulyfja þegar þau ákvæði eiga ekki að taka gildi? Hvers konar hundalógík er þetta, hæstv. ráðherra? Er von að spurt sé.

Meginatriðið, virðulegi forseti, er það að þessi málatilbúnaður er allur með slíkum ólíkindum að langt þarf að fara aftur í tímann til þess að finna einhverja hliðstæðu.