Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 13:25:56 (65)

1995-10-05 13:25:56# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega endalaust hægt að taka hlutina úr samhengi eins og síðasti ræðumaður er að gera hér. Þó hann komi með eitthvað úr Viðskiptablaðinu, sem hlýtur að vera uppselt eftir alla þá auglýsingu sem það hefur fengið hérna í dag, þá erum við að tala um það að við höfum aukið frelsið varðandi auglýsingu á lyfjum. Við höfum gert það. Við ætlum ekki að ganga öll skrefin jafnhratt. Um leið og við erum að auka frelsi varðandi auglýsingar erum við líka að gefa frelsi varðandi kostnað á lausasölulyfjum eða verðlagningu á lausasölulyfjum þannig að það sé ekki hægt samtímis að auglýsa t.d. útsölu á lausasölulyfjum. Við ætlum að taka þessi skref eins hægt og við höfum möguleika til að vanda vinnuna.

Einu sinni enn varðandi umsögn fjármálaskrifstofu fjmrn. Það kom fram í ræðu minni, bæði í morgun og eins í vor, að ég dreg verulega í efa að ríkið geti hagnast innan ársins um 100 millj. bara með því einu að opna lyfsölur um bæinn. Og ég er ekki ein um að draga það í efa. (GÁS: Það gengur í samkeppni við heildsölulögin, innflutninginn.) Það er bara allt annar handleggur. Það kann vel að vera á einhverju tímabili, á einhverjum mörgum árum að ríkissjóður hagnist á samkeppninni í frelsinu en alls ekki á einu ári. Það dettur fáum í hug.

Ég held að ég hafi þessi orð mín ekki fleiri í bili því að nú er orðið samtal á milli mín og hv. þm. Guðmundar Árna og það er ekki góður svipur á því.