Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 12:35:01 (72)

1995-10-06 12:35:01# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vil gera athugasemdir við á þessu stigi. Annað snýr að aðstoð við skipasmíðaiðnaðinn en hv. þm. gerði að umtalsefni að það vantaði skipulega aðstoð við skipasmíðaiðnaðinn í fjárlögum næsta árs. Af þessu tilefni vil ég segja að slíka aðstoð hefur ekki verið að finna á fjárlögum hvorki yfirstandandi árs né fyrra árs en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var þá iðnrh. Hins vegar beitti ríkisstjórnin sér fyrir því á sl. ári að liðka til fyrir skipasmíðaiðnaðinum en í desember sl. urðu umræður hér á þingi og niðurstaða þeirra umræðna varð sú að ekki þyrfti á slíkum fjármunum að halda í ár. Þrátt fyrir það ákvað núv. ríkisstjórnin í vor eða snemmsumars að veita slíka aðstoð en talið er --- og þess vegna er ekki að finna orð um þetta í frv. --- að hún þurfi ekki að koma á næsta ári vegna breyttra reglna Evrópusambandsins, þess sambands sem Alþfl. þráir nú mest að komast í.

Að hinu leytinu og það er seinna atriðið vil ég nefna það af því að hv. þm. að vonum hældi sínum ágætu flokksmönnum, fyrrv. ráðherra Jóni Sigurðssyni og fjarverandi formanni flokksins, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, og sagði þá að eitt merkilegasta starf sem hefði átt sér stað að undanförnu væri samstarf iðnrn. og Landsvirkjunar, sem hv. þm. Jón Sigurðsson, þáv. ráðherra, hefði beitt sér fyrir. Til þess að það fari nú ekki rangt inn í bækur hér vil ég taka það fram að það var ráðherrann á undan honum sem kom þessu á og stofnaði til þessa samstarfs. Sá var ekki úr Alþfl. þó að hann hafi oft átt ágætt samstarf við Alþfl. Sá ráðherra hét Friðrik Sophusson.