Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 12:58:23 (76)

1995-10-06 12:58:23# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er af hinu góða að það á að ræða málin mjög mikið hér á Alþingi í vetur og ekki skal ég draga neitt úr því. En rétt er að taka fram að aðalkosningaloforð Framsfl. var að ná fram hallalausum fjárlögum og meiri hagvexti. Ég get ekkert gert að því þó Alþfl. hafi gengið illa að koma stefnumiðum sínum á framfæri þrátt fyrir mun meiri auglýsingar sem þeir lögðu í en við. Mér þykir bara leitt að þetta gekk svona illa hjá ykkur. Það þýðir ekkert að vera að skammast yfir því við okkur þó að við höfum komið okkar málflutningi á framfæri skilmerkilega. Ég skil ekki þessa afbrýðissemi. En aðalatriðið er það að við virðumst vera sammála um það að ná fram hallalausum fjárlögum og ég skil að Alþfl. sé sammála því markmiði að hallinn á fjárlögunum 1996 verði ekki meiri en 4 milljarðar. Ég skil það svo að Alþfl. sé sammála því markmiði að fjárlögin 1997 verði hallalaus. Þetta eru aðalatriði málsins. Ef það er samstaða um það er það hið besta mál. Hins vegar skil ég það mjög vel að það geti verið deildar meiningar um það í hvað útgjöldin eigi að fara þannig að ég skil það þá svo að Alþfl. muni væntanlega koma með breytingartillögur um minni útgjöld í einhverja ákveðna málaflokka og meiri í aðra. Þetta finnst mér vera mjög málefnaleg stjórnarandstaða og ég hlakka til að hafa Alþfl. í stjórnarandstöðu með svo málefnalegum hætti í vetur.