Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 13:01:27 (78)

1995-10-06 13:01:27# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að hæstv. ráðherrar eiga við erfiðan og ramman reip að draga þar sem eru örðugleikar í ríkisfjármálunum. Satt að segja öfunda ég þá ekki af því hlutskipti að þurfa að reyna að greiða fram úr því, þar eru auðvitað mörg ljón sem þarf að krækja fyrir.

Staðreyndin er hins vegar sú að hæstv. utanrrh. er þungur á skriðinu og þegar hann er loksins kominn af stað á hann oft erfitt með að víkja sér undan. Og hann átti satt að segja í talsverðum erfiðleikum með að víkja sér undan eigin fortíð hér í sinni ræðu áðan.

Það er nefnilega svo að það er ekki rétt hjá honum að meginkosningaloforð Framsfl. hafi verið hallalaus fjárlög. Meginkosningaloforð Framsfl. var að skapa 12 þús. störf. Það er hægt að renna í gegnum allan málflutning forustumanna Framsfl., tína fram auglýsingar flokksins og sýna fram á þetta. Og það var ekki einungis að þeir forustumenn Framsfl. sem höfðu uppi þennan málflutning létu sér nægja að kasta fram loforðum. Þeir sögðu beinlínis að þar lægju að baki útreikningar sem sýndu að ef hagvöxtur yrði 3%, þá væri þetta kleift. Þá yrði kleift að skapa 12 þús. störf fyrir aldamótin. Það blasir við og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. fyrr í dag að hagvöxtur er nú 3% annað árið í röð. Með öðrum orðum er búið að ná þeirri forsendu sem Framsfl. gaf sjálfur fyrir sköpun þessara starfa. Hvernig er svo niðurstaðan? Hvernig eru svo efndir þessara loforða? Efndir loforða Framsfl. eru þannig að forustumenn launþegahreyfinganna í landinu hafa lagt sitt mat á fjárlögin og í stað þess að skapa störf þá er verið að fækka störfum um 900--1.500. Þetta er staðreyndin.

Það þarf líka að leiðrétta það hjá hæstv. utanrrh. þegar hann kemur hér og segir að það sé meginviðfangsefnið að skapa 12 þús. störf. Auðvitað er ég sammála honum um það eins og margt annað að það er viðfangsefni sem við þurfum að einhenda okkur sameiginlega að. Munurinn á mér og honum er hins vegar sá að hann lofaði 12 þús. störfum. Ég lofaði því aldrei. Ég er sammála því að þetta er viðfangsefni en hann ætlaði að færa þau á silfurbakka. Er það nema von að menn spyrji nú, hæstv. utanrrh., hvar eru þessi störf?