Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 13:04:04 (79)

1995-10-06 13:04:04# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það var meginmálflutningur okkar í kosningabaráttunni að það þyrfti að skapa 12 þús. störf. Ég bið hann að koma með það orðalag mitt í sjónvarpi, blöðum eða annars staðar að ég stæði upp og lofaði nákvæmlega 12 þús. störfum. Annars er það ekkert aðalatriðið. Þetta er viðfangsefnið og um það virðumst við vera sammála. Það vill nú svo til þó að hv. þm. hafi svona óskaplega hátt út af því sem ég botna nú ekkert í. En forsenda þess að það geti tekist er að hér verði hallalaus fjárlög. Þannig að meginforsenda þess að hægt sé að standa við þennan málflutning í kosningabaráttunni er hallalaus fjárlög. Það er nú svo einfalt. Það þarf að örva hér fjárfestingu og fá erlenda aðila til að fjárfesta hér á landi og að þessu öllu er verið að vinna.

Það varð nú ekki mikill árangur í þessu sambandi á síðasta kjörtímabili, en ég ætla ekki að fara að ásaka neinn út af því. Við skulum vona að árangurinn verði meiri af því sem nú er að byrja. En þetta er viðfangsefnið og við skulum bara spyrja að leikslokum þegar líður nær aldamótunum hvernig gengur. Og þá skulum við sjá þegar upp verður staðið hvernig við stöndum okkur í þessu. Og ég vænti þess að Alþfl. vilji leggjast á þessar árar í stað þess að vera með þennan óskaplega hávaða út af því sem þeir eru sammála okkur um.