Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 13:05:59 (80)

1995-10-06 13:05:59# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú þrátt fyrir allt talsvert annt um hæstv. utanrrh. og þann flokk sem hann leiðir. Við eigum sameiginlega fortíð sem teygir sig langt aftur eftir þessari öld. Þess vegna er það ekki nema von að ég komi hér upp og mér sé talsvert niðri fyrir þegar ég sé hæstv. utanrrh. leka hér niður undan sínum eigin loforðum.

Staðreyndin er þessi: Framsfl. lofaði 12 þús. störfum. Staðreyndin sem blasir við í dag er sú að hann leggur fram fjárlög þar sem störfum er fækkað um 900--1.500 talsins. Ég vil hins vegar vera sanngjarn við hæstv. utanrrh. og það er alveg hárrétt að hann var sá, ásamt hæstv. félmrh., sem minnst hafði sig í frammi með þessi loforð. Ég minnist þess að þremur dögum fyrir kosningar var gengið á hann í sjónvarpi og hann svona frekar fór að draga úr vegna þess að honum hafði auðvitað ofboðið þau loforð sem aðrir forustumenn og kosningastjórar höfðu gefið fyrir hönd Framsfl.

En ég skal hins vegar verða við þeirri áskorun formanns Framsfl. að leggja fram á síðari stigum þessarar umræðu gögn sem sýna svart á hvítu að þetta var loforð Framsfl.

Að því er varðar síðan það að við þurfum að fá hingað erlendar fjárfestingar, þá erum við sammála um það en hæstv. utanrrh. dettur niður á það plan að segja: Það var nú ekki mikið gert í því í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hæstv. utanrrh. Hvaða fréttir erum við að lesa núna? Við erum að lesa að það séu átta fyrirtæki sem vilja kanna möguleika á að reisa hér áliðju. Það fylgir þeim fréttum að það sé vegna öflugs kynningar- og markaðsstarfs fyrrv. ríkisstjórnar. Það er nú staðreyndin, hæstv. utanrrh., sem blasir við þér og mér og öllum þeim sem lesa fjárlagafrv. að við erum núna, íslenska þjóðin og ríkisstjórnin ekki síst, að éta fyrningar síðustu ríkisstjórnar. Það var sá grunnur sem síðasta ríkisstjórn lagði sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn hafi heykst á því að skera niður útgjöld ríkisins er samt hægt að draga úr fjárlagahallanum vegna þess að veltan í þjóðfélaginu er meiri en áður. Vegna þess m.a. að fyrir tilstilli hv. þm. Sighvatar Björgvinssonar var lagður svo traustur grunnur að iðnaði að síðustu tvö árin hefur útflutningur iðnaðarvarnings frá Íslandi aukist um 20%. Og hæstv. utanrrh., það er með ánægju að ég afhendi þér þennan arf fyrir hönd Alþfl.