Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 14:40:16 (83)

1995-10-06 14:40:16# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski fremur svar en andsvar en ég held að það sé nauðsynlegt á þessari stundu og þessu stigi að svara einni fyrirspurn sem kom fram ef það getur liðkað til við framhald umræðunnar og snýr að því hverjum hafi verið kynnt frv. áður en það var lagt fram. Það skal sagt eins og er að frv. hefur engum verið kynnt öðrum en þeim sem þurfa að bera ábyrgð á því, þ.e. stjórnarflokkunum og ríkisstjórninni. Hitt er svo annað mál að það eru tveir aðilar, annars vegar aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, og hins vegar Samband ísl. sveitarstjórna sem hafa fengið upplýsingar um það hvaða atriði það eru í frv. sem gætu snert þessa tilteknu aðila sérstaklega. Það er gert á þeim grunni að um sé að ræða trúnaðarmál. Einstökum tölum sem um er að ræða og koma inn í frv. er ekki lýst heldur er fremur fjallað um þau grundvallaratriði sem málið snýst um.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þessi háttur hefur verið hafður á. Þetta hefur oft gerst áður og í reynd er það svo að þessir aðilar og þá kannski einkum og sér í lagi aðilar á vinnumarkaði hafa ætlast til þess að stjórnvöld sýndu þeim þá virðingu ef svo má að orði komast að láta þá vita fyrir fram nokkurn veginn við hverju þeir gætu búist í frv. Ég skal hins vegar viðurkenna að þetta getur skýrt þá fyrirhyggju Alþýðusambandsins að vera búið að svara nokkrum atriðum frv. jafnvel áður en það var lagt fram. En ég hygg að ég geti ekki með góðu móti sakað þá um að hafa brotið trúnaðinn því að fréttastofum var sent blað frá ASÍ, að mér er sagt, nokkrum tímum eftir að frv. var lagt fram hér á Alþingi, einum tveimur tímum seinna. Auðvitað liggur ljóst fyrir að texti þess blaðs sem kemur reyndar ekki út fyrr en í dag hafi verið settur og sleginn inn á tölvur a.m.k. áður en frv. var lagt fram á þinginu. Ég tel mjög mikilvægt að það sé Alþingi sem fyrst sjái frv. en þessi háttur hefur verið hafður á nokkrum sinnum.