Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 14:43:47 (85)

1995-10-06 14:43:47# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á það sem hv. þm. segir um þetta mál en ég vek athygli á því að hér er um að ræða aðila sem telja sig jafnvel hafa gert samninga við ríkisvaldið og það hefði verið talið eðlilegt að kynna slíkum aðilum þau tilteknu efnisatriði sem þau samningsatriði gætu snert. Ég tek skýrt fram að það var ekki verið að kynna þessum aðilum frv. í heild eða einstök önnur atriði frv. Það var ekki gert heldur einungis fjallað án talnaefnis um þau atriði sem gætu snert viðkomandi aðila og hugsanlega gætu snert samninga sem þeir hefðu gert við ríkisvaldið eða atriði sem þessir aðilar þyrftu að fást sameiginlega við. Það kann að vera að sumt í frv. hafi verið kynnt viðkomandi aðilum áður en frv. var lagt fram og kann að vera að einstakir ráðherrar hafi rætt við þá sem hugsanlega lenda í skerðingum vegna frv. á því stigi þegar frv. er í vinnslu. Ég tel að slíkt heyri til góðra vinnubragða og hafi ekkert með það að gera þá kynningu fyrir hv. þingmönnum fjárln. sem fá að sjálfsögðu frv. um leið og það er lagt fram á Alþingi og ég tek skýrt fram að stjórnarþingmenn fá ekki frv. áður en stjórnarandstöðuþingmenn fá frv. í heild sinni í hendur. Ég vona að þetta skýri það sem hér hefur verið rætt um. Það er ekki hægt að smíða frv. án þess að ræða við fjölda aðila og í sumum tilvikum telst það til góðra mannasiða að ræða við þá sem við höfum gert samninga við.