Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:55:32 (95)

1995-10-06 15:55:32# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér aðeins upp til að fagna því að hv. 2. þm. Vesturl., Sturla Böðvarsson, tekur undir gagnrýni mína varðandi vinnuaðferðir svo sem eins og þær tillögur sem eru í fjárlagafrv. um niðurlagningu sýslumannsembættanna og framsetningu þeirra. Það er vonlaust að árangur náist með því að sletta svona löguðu fram án samvinnu við heimamenn og þingmenn kjördæmanna. Ég fagna undirtektum við þessa gagnrýni. Ég fagna því einnig að hv. þm. Sturla Böðvarsson tekur undir gagnrýni mína varðandi það að hætta við áform um framkvæmdir sem búið er að skrifa undir og semja um. Ég fagna þessu og tek því svari sem kom hér fram í lokin varðandi Gilsfjarðarbrú á þann veg, að hvorki hann né neinn annar stjórnarþingmanna, láti það fram ganga að hætt verði við þá framkvæmd. Ég trúi því ekki eftir þau fyrirheit sem Vestfirðingum og Vestlendingum sem búa á aðliggjandi svæðum við Gilsfjörð hafa verið gefin. Þingmenn Vesturlands hafa allir sem einn heitið því að standa við þau áform sem þar eru uppi.