Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:00:52 (99)

1995-10-06 16:00:52# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði athugasemdir við minn málflutning hér. Mér finnst það mjög alvarlegt mál þegar skurðstofur hátæknisjúkrahúsanna hér á Íslandi hætta að geta veitt þjónustu vegna þess að starfsfólk hefur lagt niður vinnu.

Nú hefur verið um það rætt og komið mikil og hörð gagnrýni einmitt frá stóru sjúkrahúsunum um að það beri að draga úr kostnaði annarra sjúkrahúsa í öðrum landshlutum til að geta aukið starfsemina á hátæknisjúkrahúsunum. Þá hlýt ég að vekja athygli á því að það getur verið stóralvarlegt mál ef allri þessari þjónustu er safnað saman í eina eða tvær stórar stofnanir þar sem starfsmennirnir hafa öll völd og ráð í sínum höndum fremur en að veita þjónustuna víðar þannig að það sé þá e.t.v. hægt með skaplegum hætti að hafa stjórn á hlutunum. Ég tók þetta sem dæmi um þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir þegar á að gera breytingar á rekstri og skipulagi. Starfsfólk bregst eðlilega illa við launalækkun. En það er ekki sama hvaða aðferðir eru notaðar og ég vil spyrja hv. þm. hvernig hún býst við að brugðist yrði við ef farið yrði að kröfum starfsmanna Ríkisspítalanna stóru og sjúkrahúsunum á landsbyggðinni yrði lokað. Hver yrðu viðbrögðin?