Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:31:25 (122)

1995-10-09 15:31:25# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með málshefjanda að það voru nokkur vonbrigði að sjá ekki á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar að til standi að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða eins og nefnt var í umræðunum í vor þótt það hefði kannski ekki beint komið á óvart. Núverandi stjórnarstefna leiðir til þess að eign kvótans færist í hendur æ færri manna. Kvótinn gengur í erfðir og nú er alls ekki tryggt að kvótinn haldist í eigu Íslendinga eins og dæmin sanna. Ég fagna því yfirlýsingu sjútvrh. um að til standi að endurskoða lögin og gera samanburð á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum og allir þingflokkar fái aðild að þeirri endurskoðun. Það er þjóðarnauðsyn að taka á þeirri mótsögn sem nú er á milli 1. gr. laganna um stjórnun fiskveiða, þ.e. að fiskveiðistofnanir séu í eigu þjóðarinnar, og núverandi stjórnarstefnu. Ný og breytt lög eru þjóðarnauðsyn og endurskoðun þeirra þolir enga bið. Og það er svo sannarlega von mín í ljósi orða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að sú endurskoðun sem fyrirhuguð er sé raunveruleg endurskoðun en ekki bara til þess að lægja óánægjuraddirnar í Sjálfstfl.