Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:59:24 (128)

1995-10-09 15:59:24# 120. lþ. 5.2 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa forustu um að flytja þetta mál og hef út af fyrir sig engar athugasemdir að gera við málið almennt. Ég tel að það sé sannarlega tímabært að Alþingi taki á þeim málum varðandi réttarstöðu kjörbarna og foreldra þeirra sem hv. þm. og meðflm. hans hér gerir.

Það er þó eitt minni háttar atriði sem ég vil hér nefna og það er að lagafrv. er sett upp eins og um sé að ræða tæmandi upptalningu á þeim stöðum í lagasafninu þar sem staða kjörbarna og réttarstaða og foreldra þeirra kemur við sögu. Nú kann svo að vera að þetta sé þannig að um sé að ræða tæmandi upptalningu en það getur líka verið að svo sé ekki. Þess vegna finnst mér hugsanlegur hlutur að nálgast málið kannski pínulítið öðruvísi í frv., t.d. með því að segja einhvers staðar að meginprinsipp laganna varðandi réttarstöðu kjörbarna verði skýrt í öllum lögum jafnvel þó að þau séu ekki nefnd í lögum þessum. Fyrir því eru fordæmi. Þá er ég að tala um það efnisatriði sem er aðalatriði málsins og kemur fram á bls. 2 í greinargerðinni þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Með þessu frv. er lagt til að staða kjörbarna og kjörforeldra verði að öllu leyti hin sama í lögum og staða annarra barna og foreldra.``

Mér fyndist hugsanlegt að sett yrði inn grein sem innihéldi þetta almenna ákvæði. Þess eru dæmi að slíkar almennar greinar séu settar í lög og heita markmiðsgreinar enda þótt þær feli ekki í sér efnislega nálgun á tilteknum lagagreinum eða málsgreinum laga. Þetta vildi ég nefna við hv. flm. svona til umhugsunar í fyrsta lagi.

Í öðru lagi er auðvitað spurning hvort þetta mál á að fara til heilbr.- og trn. eða allshn. en það er til umhugsunar, hæstv. forseti.