Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:03:56 (130)

1995-10-09 16:03:56# 120. lþ. 5.2 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., RG
[prenta uppsett í dálka]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta góða mál sem hér er flutt og er til umræðu. Mér finnst það afar mikilvægt að réttindi barna séu samræmd og að öll börn njóti sama réttar og það er það sem flm. er að leitast við að ná fram með frv. og tekur til nokkuð margra laga.

Hann segir í greinargerð að andi gildandi laga sé ótvírætt í þá veru að réttarstaða kjörbarna og kjörforeldra sé hin sama og kynforeldra og barna þeirra og að öll siðferðileg rök mæli með því en löggjafinn mismuni og auðvitað á það að vera þannig að öll börn njóti sama réttar.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara í gegnum hin ýmsu lög sem hér eru tilgreind en vil þó leyfa mér að nefna það sem snýr að fæðingarorlofi og því sem hefur verið dregin fram hér í umræðunni að þarna er ekki sami réttur. Rannsóknir síðari ára hafa dregið það fram hversu fyrstu ævimánuðir barns eru mikilvægir sem grunnur að framtíð barnsins. Fyrstu mánuðir barns eru mjög mótandi fyrir einstaklinginn og því miklu mikilvægari en áður var talið hvernig aðbúnaður barnsins er. Tilfinningatengsl verða til á fyrstu vikum og mánuðum. Þess vegna er hefur fæðingarorlof fengið allt annað og meira gildi en áður fyrr og þess vegna taka feður nú í mun ríkari mæli en áður þátt í umönnun barns á þessu fyrsta æviskeiði og leitast við að eiga hlutdeild í fæðingarorlofi og taka þátt í umönnun barnsins á þessum fyrsta mikilvæga tíma. Það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um þetta.

Í morgun sat ég þing Barnaheilla ásamt fleiri þingmönnum. Þar voru mjög mörg fróðleg og góð erindi flutt og m.a. var fjallað um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur fullgilt en reyndar ekki lögfest og það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort ekki á að fylgja því eftir og gera kröfu um að lögfesta þann mikilvæga sáttmála. En í 2. gr. sáttmálans segir einmitt að öll börn eigi sama rétt og engin mismunun má eiga sér stað. Í skýringu framsögumanns í morgun sem fjallaði um alþjóðlegan sáttmála kom það fram að íslenskir dómstólar eru í úrskurði sínum farnir að taka mið af alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur fullgilt þannig að þrátt fyrir að þeir samningar hafi ekki skilað sér inn í lagasetningu eða lög landsins er tekið tillit til þeirra í umfjöllun og lagaúrskurði. Það styður enn þá frekar að við þingmenn tökum á svona málum og ég vænti þess að frv. verði stutt á þann veg að það verði eitt af þeim málum sem næst fram þó flutt sér af stjórnarandstöðuþingmanni.

Ég hef átt orðaskipti við flm. út af þessu máli og þingmaðurinn segir mér að hann sé að verða svo mjúkur og það er nú þannig að við höfum oft rætt það á Alþingi að þegar málefni fjölskyldunnar og barna komi til umræðu sé það algengt að karlmenn hverfi úr sal og konur sitji einar eftir. Ég fagna því að þeir sem hafa talað á undan mér eru einmitt þeir karlmenn og ég fagna því einnig að það fari að koma fram í ríkari mæli mál um fjölskylduna og hagi barna sem karlmenn flytja. Þannig á þetta að verða og ef karlmenn þurfa að vera mjúkir til að þetta gerist verð ég bara að lýsa því yfir að ég er greinilega afskaplega hrifin af mjúkum mönnum.

Virðulegi forseti. Ég treysti því að þetta mál fái góðan framgang á hinu háa Alþingi.