Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:09:01 (131)

1995-10-09 16:09:01# 120. lþ. 5.2 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna fram komnu frv. um réttarstöðu kjörbarna og mæli með að það fái vandlega meðferð í heilbr.- og trn. Þetta er eitt mjög mikilvægt skref til að laga réttarstöðu barna í landinu. Vissulega þarf að koma víðar við þegar réttarstaða barna almennt er annars vegar. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna að núgildandi lög um fæðingarorlof eru mjög gölluð og þarf að endurskoða, ekki síst til þess að tryggja að báðir foreldrar geti tengst börnum sínum tilfinningaböndum strax á fyrsta ári. Því væri e.t.v. eðlilegra að setja fram almenn ákvæði í þessi lög sem tryggja að réttarstaða kjörbarna sé í hvívetna hin sama og annarra barna en vera má að meðferð í nefnd leiði í ljós annmarka á þeirri leið.

Ég tel það mál sem er til umræðu mjög mikilvægt skref, ekki síst til að við Íslendingar reynum að koma á framfæri þeirri mynd að hér ríki ekki fordómar gagnvart innflytjendum eða kjörbörnum af hvaða ætterni sem þau eru.