Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:10:53 (132)

1995-10-09 16:10:53# 120. lþ. 5.2 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að taka undir þakkir þeirra sem hafa talað á undir mér til flutningsmanna þessa frv. til laga um réttarstöðu kjörbarna og foreldra þeirra. Mér hefur gramist það sem starfsmanni í framkvæmdarvaldinu hve kjörbörn og foreldrar þeirra hafa staðið höllum fæti, sérstaklega hvað varðar almannatryggingarnar og tel löngu tímabært að hlutur þeirra verði réttur þar og þeir fengju sömu réttindi og aðrir foreldrar og önnur börn.

Vegna umræðna um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna tel ég fulla ástæðu til þess að við íhugum að löggilda þann sáttmála hér og varpa því fram hvort ekki sé full ástæða til þess að farið verði í gegnum þau lög sem varða börn og þau borin saman við þá réttarstöðu sem börn fá í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að. Ég tel þetta mjög brýnt mál og tek undir óskir um að þetta mál fái afgreiðslu á þinginu því að það er mikil réttarbót bæði fyrir hönd kjörbarna og foreldra þeirra.