Seðlabanki Íslands

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:54:18 (140)

1995-10-09 16:54:18# 120. lþ. 5.4 fundur 14. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankaeftirlitið) frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Lífeyrissjóðirnir í landinu eru að verða öflugustu fjármálastofnanir landsins, jafnvel mun öflugri en viðskiptabankarnir. Ráðstöfunarfé þeirra er nú um eða yfir 40 þús. millj. kr. á ári og verulegum hluta af þessu fé verja lífeyrissjóðirnir til fjárfestinga og nú í auknum mæli utan lands. Auðvitað skiptir það miklu hvernig með þetta fé er farið því á bak við standa lífeyrisréttindi þeirra þúsunda sem eru félagsmenn í lífeyrissjóðunum og það varðar auðvitað hag þeirra mjög miklu hvernig fjármálaráðstafanir eru hjá lífeyrissjóðum. Það varðar ekki síður hag lífeyrisþega hvernig með fé þeirra er farið, en t.d. hag þeirra sem eiga sparifé inni í bönkum hvernig viðskiptabankar ráðstafa því sparifé.

Þrátt fyrir það að þessir lífeyrissjóðir verði stöðugt þýðingarmeiri á fjármálamarkaðnum og séu nú þegar öflugustu fjárfestar á Íslandi þá er því nú einu sinni svo farið að opinbert eftirlit með starfsemi þeirra er mun minna en opinbert eftirlit með starfsemi t.d. viðskiptabanka eða vátryggingafélaga sem einnig gegna vaxandi hlutverki á þessum markaði. Mér er kunnugt um það frá þeim árum sem ég var í viðskrn. að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands sem hefur takmarkað eftirlit með sjóðunum samkvæmt lögum um lífeyrissjóði, gerði athugasemdir við bæði rekstur og fjármálalegar ráðstafanir hjá einstökum sjóðum. Bankaeftirlitið gat ekki fylgt athugasemdum sínum nema mjög takmarkað eftir þar sem það hefur ekki sama rétt til eftirlits með lífeyrissjóðunum og starfsemi þeirra og með viðskiptabönkunum. Bankaeftirlitið getur t.d. tæpast framkvæmt vettvangsskoðanir hjá lífeyrissjóðum með sama hætti og bankaeftirlitið framkvæmir reglulega vettvangsskoðanir hjá sparisjóðum, viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum. Og allir vitum við, hv. alþm., nokkur dæmi þess að ráðstafanir forstöðumanna lífeyrissjóða með fé þeirra hafa vægast sagt verið mjög vafasamar og skapað lífeyrisþegunum og sjóðunum sjálfum veruleg vandkvæði. Mér er kunnugt um nokkur fleiri dæmi sem ekki hafa orðið opinber, m.a. dæmi um viðvaranir til sjóða, og kom síðar í ljós að þeir höfðu farið heldur óvarfærnislega með fé sitt. Þá fer starfsemi hlutabréfasjóða í landinu vaxandi. Þar er einnig um að ræða fjárfestingarsjóði þar sem miklir hagsmunir eru í húfi og sé staða bankaeftirlitsins erfið til að hafa eðlilegt, opinbert eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða, þá er hún enn erfiðari til eftirlits með starfsemi hlutafjársjóðanna því að þar er eftirlitshlutverk bankaeftirlitsins lögum samkvæmt mjög lítið.

Vitað er að nú stendur yfir endurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu og einnig hefur verið núna í nokkur ár unnið að endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands sem löngu er orðin brýnt verkefni. Vissulega má segja að það mál sem hér er rætt í þessu frv., að veita bankaeftirliti Seðlabankans lagalega stoð til að gegna eftirliti með fjármálastofnunum eins og hlutabréfasjóðum og lífeyrissjóðum með sama hætti og bankaeftirlitið gerir gagnvart bönkum og sparisjóðum, sé tiltölulega lítilvægt atriði í þeirri endurskoðun sem þarf að fara fram á lífeyrissjóðakerfinu og lögum um Seðlabanka Íslands. Á það er hins vegar að líta, að báðar þessar endurskoðanir á lögum um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra og á lögum um Seðlabanka Íslands hafa í för með sér mörg álitaefni. Lög um Seðlabanka Íslands hafa t.d. verið í endurskoðun í mörg ár án þess að náðst hafi samkomulag milli stjórnarflokka um hvernig skuli flytja það mál til Alþingis. Og ég á ekki von á því að það náist á næstunni samkomulag um umtalsverðar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Með sama hætti er endurskoðun á lífeyrissjóðakerfi landsmanna mikið og stórt verkefni sem margir aðilar þurfa að koma að, ekki síst aðilar vinnumarkaðarins. Sú endurskoðun verður ekki unnin, eða verður a.m.k. ekki lokið, nema í samráði við þá svo miðað við þá reynslu sem hv. Alþingi hefur af slíkum málum má gera ráð fyrir að það taki langan tíma, jafnvel svo árum skipti, að ljúka þeirri heildarendurskoðun og ná þeirri sátt um nýjar tillögur sem þarf að vera í samfélaginu til þess að þær gangi eftir.

Það er alveg ástæðulaust að bíða eftir að slíkum viðamiklum endurskoðunum ljúki til þess að gera breytingar eins og þær sem lagðar eru til á þskj. 14 af okkur hv. alþm. Össuri Skarphéðinssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni. Þar er lögð til sú lítilvæga breyting, sem er þó mikilvæg í sjálfu sér fyrir framgang málsins, að bankaeftirliti Seðlabankans verði falið að annast sambærilegt eftirlit með starfsemi annarra fjármálastofnana en sparisjóða og viðskiptabanka eins og bankaeftirlitið veitir nú viðskiptabönkum og sparisjóðum. Með öðrum fjármálastofnunum er fyrst og fremst átt við lífeyrissjóðina og hlutabréfasjóðina eins og áður var á minnst en eftirlitshlutverk bankaeftirlitsins gagnvart lífeyrissjóðunum er einungis að finna í ákvæðum í lögum um lífeyrissjóði. Þar er eftirlitshlutverkið nánast takmarkað við það eitt að bankaeftirlitið beiti sér fyrir gerð samræmis í reikningshaldi og ársuppgjörum sjóðanna en öllu lengra nær eftirlitshlutverkið ekki og gagnvart hlutabréfasjóðunum er eftirlitshlutverk bankaeftirlitsins lítið sem ekki neitt.

Auðvitað má segja að æskilegt hefði verið að taka nokkuð stærra skref, t.d. að skoða hvort ekki ætti að sameina bankaeftirlitið og vátryggingaeftirlitið í eina stofnun sem út af fyrir sig þyrfti ekki að vera í tengslum við Seðlabankann því að margt er skylt með þessum tveimur eftirlitsstofnunum og margt er skylt með starfsemi þeirra aðila sem þeir eiga að hafa eftirlit með. Það skref er þó ekki stigið með tillögunum í þessu frv. heldur ítreka ég að aðeins er gerð tillaga um það og meginatriði hennar í 1. gr. er að bankaeftirlit Seðlabankans hafi sams konar eftirlit með starfsemi annarra fjármálastofnana og þá er átt við fyrst og fremst lífeyrissjóði og hlutabréfasjóði eins og bankaeftirlitið hefur nú með viðskiptabönkum og sparisjóðum. Ákvæði 2., 3., 4. og 5. gr. frv. eru eingöngu breytingar til samræmis við þetta þar sem skotið er inn orðunum ,,aðrar fjármálastofnanir`` eða ,,annarra fjármálastofnana`` á eftir heitum um innlánsstofnanir, þ.e. viðskiptabanka og sparisjóði þar sem þau heiti koma fram í eftirlitsákvæði laganna um Seðlabanka Íslands.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni umræðunni.