Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 13:37:16 (142)

1995-10-10 13:37:16# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um rétt til launa í veikindaforföllum en það felur í sér breytingar á tvennum lögum. Annars vegar á lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, og í öðru lagi um breytingu á sjómannalögum, nr. 35/1985. Flm. ásamt mér er hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir.

Frumvarp þetta, sem var flutt á 118. löggjafarþingi, varð þá ekki útrætt en fór þó til félmn. Nefndin sendi frv. til umsagnar nokkurra aðila og liggja þær umsagnir fyrir frá þeim tíma. Ég tel þó rétt, virðulegur forseti, að fara nokkrum orðum um frv. og umfjöllun þess á 118. þingi, einnig í ljósi þess að kosið hefur verið nýtt þing og nýir þingmenn hafa komið inn á Alþingi frá því að málið var flutt og vegna þess að ég tel rétt ásamt öðrum flutningsmanni málsins að á þetta mál reyni frekar og þess vegna er það flutt öðru sinni á Alþingi.

Frumvarpið hefur að markmiði einkum tvennt. Annars vegar er lögð til lagabreyting sem stuðlar að því að tryggja og að nokkru leyti að jafna rétt launþega hér á landi til launa í veikindaforföllum og hins vegar er sérstaklega kveðið á um rétt tiltekins hóps manna, heilbrigðra líffæragjafa, og lagt til að þeim verði veittur lagalegur réttur til launa eins og um veikindaforföll væri að ræða. Þessar breytingar eru lagðar til í ljósi þróunar hér á landi og er þá höfð í huga m.a. aukin áhersla á að fyrirbyggja alvarlega sjúkdóma í ljósi framfara í læknisfræði og vegna fjölda nýrra meðferðarleiða í sambandi við sjúkdóma eða vegna fyrirbyggjandi aðgerða.

Eins og ég hef nefnt er kveðið á um rétt launþega til launa í veikindaforföllum í tvennum lögum og til einföldunar er því lagt til í frv. að breyta hvoru tveggja, hinum almennu lögum sem varða rétt verkafólks til launa í veikindaforföllum og sjómannalögunum.

Það hefur átt sér stað nokkurt misrétti milli einstakra hópa launafólks að því er varðar rétt til launa í veikindaforföllum. Það byggist m.a. á því að réttur verkafólks og sjómanna á þessu sviði hefur verið túlkaður mjög þröngt og hins vegar á því að þessum hópum hefur ekki verið tryggður réttur í samræmi við þróun á sviði nútímalækninga.

Það má nefna að starfsmenn ríkis og bæja, a.m.k. margir hverjir fá greidd laun í 15 daga vegna fjarveru af völdum tæknifrjóvgunar og á hver starfsmaður rétt á slíkum greiðslum einu sinni. Sé litið til þessarar þróunar er langt frá því að verkafólk og sjómenn njóti slíks réttar og í raun hefur þróunin í heild leitt til þess að verkafólk og sjómenn hafa í dag lakari rétt en almennt gerist og lakari rétt en ráða mál af lagafyrirmælum. Hugtökin ,,sjúkdómur`` og ,,óvinnufærni`` í lögunum frá 1979 og frá 1985 hafa verið túlkuð afar þröngt af dómstólum. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að lögin tryggi þeim ekki rétt sem að læknisráði gangast t.d. undir hjartaþræðingu og rannsókn vegna magasárs. Fjarvistir vegna munnskurðaðgerðar, kjálkaaðgerðar eða ísetningar nýs gerviauga hafa ekki verið taldar veita rétt til launa í veikindaforföllum svo dæmi séu nefnd. Síðan er það tæknifrjóvgunin sem ekki er talin geta talist til greiðsluskyldra forfalla enda þótt ófrjósemi kunni að stafa af sjúkdómi og er þar um mismunun að ræða miðað við það sem gerist hjá opinberum starfsmönnum.

Frv. tekur á þessum atriðum og gerir ráð fyrir því að tryggður sé réttur launþega til greiðslu launa í forföllum að læknisráði án þess að það sé gert að ófrávíkjanlegu skilyrði að viðkomandi sé óvinnufær. Síðan er tekið sérstaklega á rétti heilbrigðra líffæragjafa. Heilbrigðir líffæragjafar hafa sérstöðu þar sem þeir gangast heilbrigðir undir aðgerð til hjálpar þriðja manni, e.t.v. ekki beinlínis að ráði læknis þó að um geti verið að ræða að verið sé að bjarga lífi annars einstaklings. Sú breyting sem frv. gerir ráð fyrir á þannig fyrst og fremst rætur að rekja til mannúðarsjónarmiða.

Greinar frv. að því er varðar breytingu á almennu lögunum og sjómannalögum eru hliðstæðar og er gerð grein fyrir þeim í athugasemdum við einstakar greinar frv., sem ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vísa til og tel ekki nauðsynlegt að rekja sérstaklega í framsögu. Ég vil hins vegar víkja að því að flutningur þessa máls á 118. þingi kallaði fram mjög ólík viðbrögð þeirra sem sendu umsagnir um málið til hv. félmn. Þar skipti mjög í tvö horn. Annars vegar voru það félög launafólks og sjómanna, svo sem Vélstjórafélagið og Bandalag háskólamanna, Alþýðusamband Íslands og sjómannasamtökin, sem töldu að hér væri um mjög mikilvæga réttarbót að ræða og hvöttu eindregið til þess að frv. fengi jákvæða meðferð hér á Alþingi Íslendinga og yrið afgreitt. Hins vegar voru það samtök vinnuveitenda, atvinnurekenda, sem lögðust mjög hart gegn frv. í umsögnum sínum og vöruðu við því og lögðu mjög ákveðið til að frv. fengi ekki framgang hér á Alþingi. Þeir færðu sín rök fyrir því sem ég get ekki deilt með þeim aðilum sem þarna veittu umsagnir um málið. En fróðlegt væri fyrir þingnefnd þá sem nú fær málið til umsagnar að kynna sér þær og fyrir hv. þm. að líta yfir þær. Ég get vísað til ítarlegrar umsagnar Alþýðusambands Íslands og fleiri aðila sem taka undir tillögur frv. og það er líka fróðlegt að sjá rökin frá atvinnurekendasamtökunum sem eru mjög keimlík og alveg ljóst að þessir aðilar hafa með sér náið samráð sem ég ætla ekki að lasta.

Hitt kom svolítið á óvart að fjmrn., sem ekki var sent málið sérstaklega til umsagnar, enda ekki kannski almennt tíðkað af þingnefndum að biðja um formlegt álit ráðuneyta, sá sérstaka ástæðu til að senda umsögn til nefndarinnar og lagðist þar eindregið á sveif með þeim aðilum, þ.e. atvinnurekendasamtökunum, sem mæltu gegn samþykkt málsins og færðu þar fram sín rök við því. Ég ætla að leyfa mér að grípa hér, með leyfi hæstv. forseta, niður í umsögn fjmrn. um málið þar sem að fram kemur að ráðuneytið hefur frumkvæði að því að veita skriflega umsögn til nefndarinnar. Þar segir:

,,Tilgreint lagafrumvarp hefur að geyma efnislega sömu breytingar á ákvæðum tveggja mismunandi laga. Í sem stystu máli er fjmrn. ósammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í greinargerð með frv. varðandi það að skilyrðið um óvinnufærni eigi ekki að leggja til grundvallar við mat á því hvort launþegi nýtur réttar til launa í veikindaforföllum. Af hálfu ráðuneytisins hefur hugtakið óvinnufærni ávallt verið lagt til grundvallar því mati. Má sem dæmi nefna að 4. gr. rg. nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins, gerir sérstaklega ráð fyrir að áður en starfsmaður hefur störf á ný eftir að hafa verið veikur í einn mánuð eða lengur, skuli hann leggja fram heilbrigðisvottorð er sýni að viðkomandi teljist vinnufær.`` Af þessu má ljóst vera að byggt er á óvinnufærnishugtakinu hjá hinu opinbera.``

Það er þó viðurkennt í þessari umsögn að í sambandi við aðgerðir vegna tæknifrjóvgunar hafi ríkið fallist á greiðslur til sinna starfsmanna. Um þetta segir í umsögninni:

,,Ráðuneytið vill jafnframt gera athugasemd varðandi ummæli í greinargerð þess efnis að opinberir starfsmenn hafi fengið viðurkenndan rétt til greiðslu launa vegna forfalla af völdum tæknifrjóvgunar. Raunin er sú að forföll vegna tæknifrjóvgunar eru almennt ekki viðurkennd sem greiðsluskyld forföll hjá hinu opinbera. Fyrir fáum árum voru tæknifrjóvganir einvörðungu framkvæmdar erlendis og kallaði utanför af því tilefni á langar fjarvistir frá vinnu. Því var af hálfu launaskrifstofu ríkisins (nú starfsmannaskrifstofu fjmrn.) gefin út einhliða ákvörðun í apríl 1989`` --- ég kem því að með því að taka eftir ártalinu 1989 --- ,,um tilhögun greiðslu launa vegna fjarveru af völdum tæknifrjóvgunar. Þar var ákveðið að þeim starfsmönnum sem væru fjarverandi vegna tæknifrjóvgunar yrðu greidd dagvinnulaun og eftir atvikum vaktaálag samkvæmt reglubundinni varðskrá í 15 vinnudaga en þó var aðeins heimilað að greiða hverjum starfsmanni laun á þessum forsendum einu sinni. Ekki hefur verið sérstaklega fjallað um greiðslur í forföllum vegna tæknifrjóvgunar eftir að farið var að framkvæma þær alfarið á hérlendum sjúkrastofnunum. Ákvörðunin frá 1989 náði að verða hluti af kjarasamningum bæjarstarfsmannafélaga, annarra en Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.``

Þetta læt ég nægja sem lestur úr umsögn fjmrn. um þetta efni en hér er, eins og fram kemur, viðurkennt að þetta hafi verið ákvarðað svo 1989, sú ákvörðun hafi ekki verið tekin til baka og að hún hafi gengið inn í samninga bæjarstarfsmannafélaga annarra en Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þannig blasir þessi mismunun við að því er varðar þá hópa sem þarna er um að ræða.

Í þessu sambandi, virðulegi forseti, er fróðlegt að líta á nýlega fallinn dóm þann. 17. mars 1995, í héraðsdómi Reykjaness í máli sem tiltekinn einstaklingur höfðaði gegn Íslenska álfélaginu hf. og gerði þar kröfu um greiðslu bóta upp á nær 110 þús. kr. ásamt dráttarvöxtum vegna læknismeðferðar við tilteknum sjúkdómi og að vinnuveitandi yrði dæmdur til greiðslu á þessu. Í þessu sambandi er fróðlegt að heyra niðurstöðu dómsins, ég tek aðeins smáhluta hér úr forsendum, með leyfi forseta. Þar segir:

Það er mat réttarins að þegar fyrir liggi úrskurður læknis um að starfsmaður sé haldinn sjúkdómi sem leiðir fyrr eða síðar til óvinnufærni og ekki verður ráðin bót á nema að hann fari í læknismeðferð sem geri það nauðsynlegt að hann hverfi frá vinnu á meðan á meðferðinni stendur, þá verði að miða við upphafstíma lögmætra forfalla frá vinnu við það hvenær aðstæður eru til að hann fari á sjúkrastofnun, þ.e. hvenær þar er laust rúm, en ekki sé einblínt á það hvenær hann hnígur niður á vinnustað sem gæti haft í för með sér meira tjón fyrir bæði starfsmanninn og vinnuveitanda að sjúklingur verði fyrir bragðið að liggja óvinnufær heima og bíða eftir rúmi.

Stefnandi fór að ráði læknis eins fljótt til lækninga á heilsugæslustofnunina og hann komst en reyndi jafnframt að vinna alveg fram að þeim tíma, jafnvel þótt hann væri talinn þá nær óvinnufær svo ekki verður séð að hann hafi reynt að svíkjast frá vinnu vegna veikindanna.

Í málinu verður því fallist á að stefnandi hafi skv. 5. gr. laga nr. 19 1979 og vinnusamningi milli stefnda og stéttarfélags stefnanda frá 4. apríl 1990, átt rétt á fullum launum í framangreindum veikindaforföllum frá 3. ágúst til 27. ágúst 1993. Er krafa stefnanda tekin til greina og ber stefnda að greiða honum 109.814, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga, nr. 25 1987, frá stefnubirtingardegi 9. sept. 1994 til greiðsludags, en krafa hans um dráttarvexti miðist við 1. sept. 1993 kom ekki fram fyrr en málflutningi er mótmælt af stefnda og er ekki tekin til efnismeðferðar.

Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 80. þús. í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur. Og dóm þennan kvað upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari, og dómsorðið er svofellt:

Stefndi, Íslenska álfélagið hf., greiðir stefnanda, Jóhannesi Gunnarssyni, kr. 109.814 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 9. sept. 1994 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda í málskostnað kr. 80. þús. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Því er þetta tíundað hér, virðulegi forseti, að þessi dómur sker sig nokkuð úr mörgum dómum sem fallið hafa á annan veg í þessum efnum. Nú mun þessum dómi hafa verið áfrýjað til Hæstaréttar og er fróðlegt að vita hvernig sú niðurstaða verður er Hæstiréttur hefur fjallað um málið og kveðið upp sinn dóm.

Ég vil svo að endingu, virðulegi forseti, segja um þetta mál, að ég vil ekki trúa öðru en eftir að hv. Alþingi hefur litið á málavöxtu og athugað þá stöðu sem uppi er í þessum efnum, að því er varðar möguleika fólks til þess að leita eftir fyrirbyggjandi aðgerðum þó ekki verði það metið óvinnufært með öllu þegar það leitar sér lækninga, þá verði tryggður með lögum réttur til launa á grundvelli laga eins og hér er lagt til. Ég held að rökin að því er sjómenn varðar, séu enn þá ljósari að þessu leyti og mætti þar margt til tína. Ég heiti því á hv. Alþingi að taka þetta mál til efnislegrar og jákvæðrar meðferðar að sjálfsögðu samkvæmt tillögum okkar flm. í þessu máli og legg til að málinu verði að umræðu lokinni vísað til hv. félmn.