Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:13:22 (146)

1995-10-10 14:13:22# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls þátttöku í umræðunni. Enda þótt þau sjónarmið séu mjög ólík sem fram hafa komið er gott að þau komi fram hér við 1. umr. málsins.

Mér þótti mjög athyglisvert að hæstv. félmrh. sá ástæðu til þess að vera við umræðuna og það tel ég lofsvert. Það er ágætt að hann skuli tjá hug sinn til málsins á þessari stundu. Hitt þótti mér jafndapurlegt að heyra málflutning hæstv. ráðherra í sambandi við þetta frv. og þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Satt að segja kom mér verulega á óvart að hæstv. ráðherra skyldi sjá ástæðu til þess við 1. umr. að taka af skarið með þeim hætti um niðurstöðu sína varðandi málið eins og hann gerir og að koma í rauninni með þeim hætti skilaboðum af hálfu ríkisstjórnarinnar til stuðningsmanna hennar á Alþingi, a.m.k. meintra stuðningsmanna, varðandi það hvernig þeir eigi að taka á þessu máli við frekari umfjöllun. Það er að sjálfsögðu góður réttur hæstv. ráðherra að koma slíkum skilaboðum á framfæri. En það er líka mjög athyglisvert að tækifærið skuli notað hér með þessum hætti.

Ég vil rifja það upp að þegar lögin um rétt verkafólks til launa í veikindaforföllum voru sett 1979. Þá áttum við hætsv. núv. félmrh. samleið varðandi þá lagasetningu, vorum stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar sem stóð að þeim réttarbótum. Þær voru reyndar margar fleiri réttarbæturnar sem þá voru lögfestar fyrir launafólkið í landinu. En síðan hefur nokkurt vatn runnið til sjávar og það hafa orðið nokkrar breytingar á þeim flokki sem hæstv. félmrh. hefur starfað fyrir á Alþingi um áratugi. Ég tel að þær lýsi sér nokkuð vel í þeim sjónarmiðum sem hér koma fram af hálfu hæstv. ráðherra að hann skuli sjá ástæðu til þess að taka hér einhliða undir sjónarmið atvinnurekenda í þessu máli sem vafalaust hafa hnippt í hæstv. ráðherra svo hann stæði nú vaktina í þessum efnum og kæmi sjónarmiðum jafnt Vinnumálasambands samvinnufélaga sem Vinnuveitendasambandsins á framfæri hér við Alþingi og varaði þingheim við að fallast á þær réttarbætur og þá ótvíræðu túlkun eða réttara sagt þann úrskurð sem þarf að fella á Alþingi varðandi túlkun á þessum lögum þar sem þau hafa verið mistúlkuð. Dómar hafa fallið sem sýna að lögin halda ekki og þurfa þess vegna skýringa við og skýrari fyrirmæla af hálfu Alþingis. Og ég hafði satt að segja vænst þess og haldið að hæstv. félmrh. væri sá sem vildi frekar hlífa heldur en höggva í sambandi við þetta efni. Ég hef reynt hæstv. félmrh. í ýmsum efnum sem réttsýnan mann. Alveg sérstaklega af þeim sökum kom mér á óvart hvernig hann tók hér til orða og gekk nú nánast það langt, eins og fram kom í ágætu máli hér hjá hv. 12. þm. Reykv., að láta liggja að því að menn fari að stunda sölu líffæra sem eins konar gróðaveg eins og heyrst hefur að sé ástundað af mafíu í löndum þar sem enginn fær notið réttar eða réttlætis í samskiptum við opinbera aðila. Þetta var leitt til að vita. Ég vil ekki trúa því, virðulegur forseti, að þetta sé hugur manna almennt hér á Alþingi sem hér er verið að túlka.

Varðandi það sjónarmið sem hv. 16. þm. Reykv., Pétur H. Blöndal, kom hér fram með um fyrirtækin í landinu, fyrirtækin í landinu með stórum staf, þá eru það auðvitað hin skýru rök sem atvinnurekendasamtökin hafa borið fram í þessu máli og liggja m.a. fyrir í umsögnum frá 118. þingi, sem ég er ekki að ætlast til að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi farið yfir eða kannist við, en þau eru nákvæmlega sama eðlis. Í bakgrunni blasir við það sjónarmið að starfsmaðurinn er í raun ekki hluti fyrirtækisins. Það er eigandinn, það er fjármagnið sem að baki liggur en það er ekki starfsmaðurinn. Er ekki heilbrigður starfsmaður, sem reynir að halda starfsgetu sinni, m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum, að gæta hagsmuna þeirra sem hann vinnur fyrir og ætlar að helga starfskrafta sína? Hvers konar siðfræði er það sem hér liggur til grundvallar? Er fyrirtækið bara kapítalið? Hvað um sjómanninn sem dregur björg í bú á Íslandsmiðum og leyfir sér það að bregðast við aðsteðjandi vanda og veikindum sem geta komið hvenær sem er í úthaldi? Með tilheyrandi kostnaði fyrir útgerðina. Hann á ekki að hafa rétt til að leita sér lækninga við yfirvofandi sjúkdómi sem fyrir liggur að mati læknis. Það er vísað til þess að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja um þetta atriði. Þá sem mæla fyrir því hvet ég eindregið til að lesa umsagnir atvinnurekendasamtakanna um þetta mál sem hér er flutt frá 118. þingi og sjá þá samningsstöðu. Þegar ríkisvaldið kemur fram með hæstv. félmrh. sem talsmann að þessu sinni og með hæstv. fjmrh. sem sérstakan umsagnaraðila með skriflegri umsögn að eigin frumkvæði í félmn. á 118. þingi þá sjá menn samningsstöðuna.

Það kemur auðvitað ekki sérstaklega á óvart að það fari að sjást í hárin undan sauðargærunni hjá þeim fulltrúum sem tekið hafa saman í meiri hluta hér á Alþingi Íslendinga og ætla hér að ráða og setja lög á þessu kjörtímabili. Það hefur sést í úlfshárin fyrr í slíku samstarfi, hæstv. forseti. Og ég á von á því að það eigi eftir að koma fleiri í ljós heldur en þau sem birtast í þessum umræðum og ummælum sem hér hafa fallið. Ég held að það sé full ástæða fyrir vinnandi fólk á Íslandi að taka eftir þessu þó þetta þyki kannski ekki mjög stórt mál sem hér er á ferðinni. Í mínum huga er þetta stórt mál, prinsippmál, og þeim kann að fjölga í samskiptunum við það ríkisvald og meiri hluta sem það styðst við hér á Alþingi Íslendinga ef menn ætla að ganga fram með þeim hætti sem viðtökurnar við þessu frv. fá hér hjá hæstv. félmrh. og fleiri starfsmönnum þessa meiri hluta.