Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:22:49 (147)

1995-10-10 14:22:49# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerir mér upp skoðanir. Ég sagði aldrei að fyrirtæki væri kapítal. Ég sagði eingöngu að þessar reglur gætu komið litlu fyrirtæki illa. Það sagði ég og annars ekki neitt. Það er hagur fyrirtækisins að starfsmenn séu vel tryggðir. Ekki spurning. Ég tók undir sjónarmið sem komu fram í frv. að auðvitað þurfum við að horfa á launþega. Auðvitað þurfum við að horfa á fólkið sem þarf að fara í hjartaþræðingu og annað slíkt. Ég tók meira að segja fram að það væri hagur beggja að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Engu að síður getur það komið litlum fyrirtækjum mjög illa. Þar tala ég ekki sem fulltrúi fjármagns eða neitt slíkt. Ég ætla að biðja hv. þm. að gera mér ekki upp þær skoðanir. Ég sagði að það gæti komið litlu fyrirtæki illa, fimm til sex manna fyrirtæki, að missa starfsmann úr vinnu vegna fyrirbyggjandi aðgerðar. Auðvitað eiga menn að vera tryggðir einhvers staðar, t.d. í þessum frægu sjúkrasjóðum sem fyrirtækin eru látin borga 1% í og enginn veit hvað á að gera við. Það er ekki tekið á því hér í frv. og ég lagði til að menn litu heldur á þetta með það í huga að breyta lögunum um sjúkrasjóðina en ekki að bæta enn meiri álögum á fyrirtækin. Ég ætla að biðja menn að fara ekki að gera mér upp skoðanir.