Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:26:14 (149)

1995-10-10 14:26:14# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Með þessu frv. er verið að ræða gamalt deilumál. Eðlilegar deilur um það hvar mörkin séu, hvað hver skuli borga. Það er rétt að þingheimur viti það vegna ummæla annars flm. að það stendur til, hefur staðið til og er opið og hefur verið opið árum saman frá hendi atvinnurekendasamtakanna á Íslandi að ræða allan heildarpakkann sem varðar sjúkratryggingar og réttindi starfsmanna. Það hefur aldrei staðið á því að taka það upp í heild.

En ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst ömurlegt og slæmt að vita til þess þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnar í ummæli og álitsgerð atvinnurekenda að þá má skilja orð hans svo að þar fari úlfarnir. Þar sjáist í úlfahárin ef einhver fylgjandi ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherra sé sammála þeim. Það er ömurlegt að þetta skuli gerast hér á löggjafarþinginu. Vinnuveitendur og samtök þeirra eru hluti vinnumarkaðarins. Það ásamt launþegunum er sá mótor sem dregur þessa þjóð og heldur henni uppi. Ég held að okkur mundi farnast betur ef við ætluðum bæði vinnuveitendum og launþegum full heilindi í öllum þeirra málflutningi.