Umboðsmenn sjúklinga

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:59:45 (160)

1995-10-10 14:59:45# 120. lþ. 6.8 fundur 25. mál: #A umboðsmenn sjúklinga# þál., Flm. ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hafa á síðustu árum orðið meðvitaðri um að auðvelda beri borgurum leiðir til þess að fá fjallað um mál er snerta samskipti þeirra við stjórnsýslu eða þjónustustofnanir. Stofnun embættis umboðsmanns Alþingis er gleggsta dæmið um að stjórnvöld hafi viðurkennt þessa þörf. Þá hefur með stofnun embættis umboðsmanns barna verið stigið mikilvægt skref í þessa veru og væntanlega munu öll börn eiga öflugan talsmann þar.

Það hefur verið nokkuð misjafnt hver stefnan í réttindagæslu borgaranna hefur verið, t.d. í okkar næstu nágrannalöndum. Í Danmörku er starfandi umboðsmaður danska þjóðþingsins eins og kunnugt er. Með breytingum á lögum um þetta embætti hefur valdsvið umboðsmannsins verið víkkað þannig að nú er það á hans færi að taka við umkvörtunum í samskiptum borgaranna við önnur stjórnsýslustig en ríkisvaldið, þar á meðal þjónustustofnanir sveitarstjórna. Þótti slík breyting nauðsynleg í kjölfar breytinga á skipan sveitarstjórnarmála og tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Svíar hafa tekið aðra stefnu og skipað sérstakan umboðsmann fyrir ýmsa viðkvæma minnihlutahópa. Þannig er þar í landi starfandi sérstakur umboðsmaður barna, umboðsmaður innflytjenda og nú fyrir skömmu tók til starfa umboðsmaður fatlaðra. Þá hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna verið stofnað embætti umboðsmanns fatlaðra.

Virðulegi forseti. Sjúkrastofnanir erlendis hafa í vaxandi mæli skipað sérstaka talsmenn eða umboðsmenn til stuðnings sjúklingum sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi þjónustu eða telja sig hafa orðið fyrir vanrækslu starfsfólks. Umboðsmenn sjúklinga starfa nú í yfir helmingi allra heilbrigðisstofnana í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum er verið að gera tilraunir með svipað fyrirkomulag.

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess áður en lengra er haldið að hv. þm. Kvennalistans hafa á 112., 116. og 117. löggjafarþingi flutt frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu á þá leið að trúnaðarmenn sjúklinga skuli starfa við sjúkrahús. Þannig hefur ekki óskyld hugmynd komið áður til umræðu hér á Alþingi og er það vel. Það mál hefur hins vegar ekki enn fengið afgreiðslu þingsins. Þó svo að mál það sem hér er mælt fyrir sé skylt, þá er hlutverk umboðsmanns sjúklinga eins og hér er lagt til hugsað með nokkuð öðrum hætti en fyrrgreind tillaga Kvennalistans.

Á tímum hagræðingar og niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni er enn mikilvægara en áður að hagsmuna sjúklinga sé gætt í hvívetna. Nauðsynlegt er að tryggja sjúklingum upplýsingar um réttindi sín og auðvelda þeim að leita réttar síns eða koma kvörtunum á framfæri, telji þeir á sér brotið. Kvartanir vegna þjónustu sjúkrahúsa eða annarra heilbrigðisstofnana má oft rekja til lélegra boðskipta og skorts á upplýsingum. Þar er þeim sem minna mega sín, svo sem börnum, öldruðum og fötluðum, sérstök hætta búin. Þar getur umboðsmaðurinn gegnt mikilvægu hlutverki sem réttindgæslumaður sjúklinganna.

Virðulegi forseti. Rétt er í þessari umræðu að vekja athygli á stöðu fjölmargra aldraðra sem ljúka ævinni á öldrunardeildum sjúkrahúsanna vegna skorts á hjúkrunarheimilum eða heimaþjónustu sem þó gæfi þeim möguleika á ævikvöldi sem meiri reisn væri yfir. Það er óhætt að fullyrða að sá aðbúnaður, sem mörgum öldruðum býðst, stenst engan veginn ákvæði ýmissa mannréttindasáttmála sem Ísland hefur fullgilt og nægir þar að nefna alþjóðlegan samning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem fullgiltur var af Íslands hálfu árið 1966. Í samningi þessum er m.a. kveðið á um að enginn skuli sæta ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og allir eigi rétt til einkalífs og þess að fá að vera í næði. Það er alveg ljóst að vegna manneklu og fjárskorts þarf oft að beita þvingandi aðferðum gagnvart öldruðum sem dvelja á öldrunardeildum í því skyni að tryggja öryggi þeirra. Og ekki er hægt að segja að aðbúnaður á öldrunardeildum tryggi öldruðum næði.

Hlutverk umboðsmanns væri m.a. að vekja athygli á slíku og benda á leiðir sem auka gæði þjónustu við þennan hóp og tryggja að þeir geti endað ævi sína með virðingu og reisn og að réttur þeirra til frelsis og öryggis sé tryggður.

Virðulegi forseti. Fatlaðir sem og geðfatlaðir eru minnihlutahópar sem oft eiga í erfiðleikum með að gæta hagsmuna sinna. Mikilvægt er að heilbrigðisstofnanir gæti jafnræðis gagnvart þessum hópum og það sé tryggt að allir sem eigi við sama heilbrigðisvanda að etja fái sambærilega meðferð og séu þannig jafnir fyrir lögum. Þetta er ekki síst mikilvægt á tímum umræðu um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Umboðsmaður sjúklinga hefði það hlutverk m.a. að tryggja það að umræða um jafnræði allra sjúklinga ásamt siðfræðilegum viðmiðunum væri haldið vakandi þannig að komið væri í veg fyrir mismunun og ranglæti í meðferð á sjúkra- og heilbrigðisstofnunum.

Virðulegi forseti. Fjöldi umkvartana sjúklinga til landlæknisembættisins sýnir að vandinn í samskiptum sjúklinga og starfsfólks er sannarlega fyrir hendi. Kvartanir voru 252 árið 1993, 275 árið 1994 og voru orðnar 196 þann 15. september sl. Tilefni kvartananna var m.a. meint röng meðferð, ófullnægjandi meðferð, samskiptaörðugleikar, ófullnægjandi upplýsingar og trúnaðarbrot. Þótt þessar tölur séu nokkuð sláandi er ástæða til að ætla að fjölmörg önnur tilvik sem telja má að geti orkað tvímælis í meðferð eða framkomu rati ekki rétta leið þar sem margir sjúklingar vita ekki af rétti sínum til þess að kvarta eða þeim leiðum sem þeim eru færar. En þá má með nokkrum rétti segja að landlæknir sé umboðsmaður sjúklinga á landsvísu.

Það hefur hins vegar verið gagnrýnt af samtökum sjúklinga, t.d. hagsmunasamtökum þeirra sem telja sig hafa orðið fórnarlömb mistaka og kallast Lífsvon, að það sé óeðlilegt að landlæknisembættið, sem á að hafa eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustunnar í landinu og bera ábyrgð á gæðum hennar, sé jafnframt í hlutverki hagsmunagæsluaðila sem tekur við umkvörtunum sjúklinga, metur þær og dæmir. Þetta samræmist ekki góðum stjórnsýsluháttum og getur skapað óvissu um réttarstöðu sjúklinga.

Margir sjúklingar telja enn fremur að ef þeir vilja ræða um umkvörtunarefni sín sé mjög oft lokað á þá umræðu innan stofnana og fyrir marga er það of stórt skref að stíga að kvarta formlega við landlæknisembættið.

Virðulegi forseti. Í ljósi þessa teljum við það mikilvægt að á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum starfi umboðsmenn sjúklinga sem hafi það hlutverk að gæta þess að fullt tillit sé tekið til réttinda, hagsmuna og þarfa sjúklinga og að fylgst sé með því að sjúklingum sé ekki mismunað og að jafnræðis sé gætt. Þeir taki við umkvörtunum, meti þær og aðstoði sjúklinga við að koma þeim á framfæri, stuðli að því að umhverfi sjúkrahúsanna sé sjúklingum og aðstandendum þeirra vinsamlegt og hafi milligöngu um að leysa samskiptamál og deilumál. Umboðsmenn sjúklinga gegna því mikilvægu hlutvekri í því að efla þjónustugæði heilbrigðisstofnana.

Virðulegi forseti. Það er almennt mat þeirra fræðimanna sem hafa fengist við að kanna áhrif þess að umboðsmenn sjúklinga starfi við heilbrigðisstofnanir að tilvist þeirra dragi úr öllum þeim vandamálum sem upp koma í samskiptum sjúklinga og starfsfólks og þeir eiga að geta haft milligöngu um mál er varða samskipti sjúklinga við alla starfshópa sjúkrastofnana. Þeir gætu einnig að höfðu samráði við sjúklinga eða forráðamenn þeirra vísað málum til annarra aðila, svo sem siðanefndar sjúkrahúsa, læknaráða, yfirmanna lækninga- og hjúkrunarsviða eða annarra þeirra sem hafa með málefni sjúklinga að gera, þar á meðal landlæknis og umboðsmanns Alþingis.

Virðulegi forseti. Í þáltill. okkar fjöllum við ekki sérstaklega um menntun umboðsmanna en það gefur auga leið að viðkomandi þarf að hafa annaðhvort menntun og þekkingu á heilbrigðismálum eða að vera löglærður. Þá gefur það auga leið að öðrum störfum innan veggja stofnana getur viðkomandi ekki sinnt jafnframt því að vera réttindagæslumaður sjúklinga.

Virðulegi forseti. Flm. þessarar tillögu telja eðlilegt að umboðsmenn sjúklinga starfi við öll stærri sjúkrahús og í hverju heilsugæsluumdæmi, en telja þó rétt í upphafi, þar sem um nýbreytni í þjónustu við sjúklinga á Íslandi yrði að ræða, að slíku starfi verði komið á fót við Ríkisspítalana til reynslu.

Virðulegi forseti. Það er von okkar að þáltill. okkar fái jákvæða umfjöllun hér á Alþingi og að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til síðari umr. og hv. heilbr.- og trn. Alþingis til frekari umfjöllunar.