Umboðsmenn sjúklinga

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:12:03 (161)

1995-10-10 15:12:03# 120. lþ. 6.8 fundur 25. mál: #A umboðsmenn sjúklinga# þál., KH
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir efni þessarar tillögu sem hv. 1. flm. hefur skýrt rækilega í sinni framsöguræðu. Og það þarf engan að undra að við tökum undir efni þessarar tillögu því að hún er mjög samhljóma eða hliðstæð því þingmáli sem þingkonur Kvennalistans hafa ítrekað flutt hér á Alþingi, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem hv. 1. flm. gat um hér áðan. Reyndar vakti það athygli og svolitla undrun okkar kvennalistakvenna að svo virtist sem hv. flm. vissu ekki eða myndu ekki eftir þessu frv. sem þó hafði þrisvar sinum verið til umfjöllunar á Aþingi og það kom reyndar á ljós við eftirgrennslan að svo var, flm. vissu ekki af þessu frv. Það var flutt eins og kom fram hér áðan á 112., 116. og 117. löggjafarþingi en þá var Alþfl. í ríkisstjórn og þangað er kannski að sækja skýringuna á því að þeir skyldu ekki muna eftir frv. Því miður er það nú svo að þingmenn stjórnarflokka veita ýmsum þeim þingmálum sem þingmenn stjórnarandstöðu flytja hér á hv. Alþingi litla athygli. Þeir kalla nógu stíft eftir athygli þingmanna stjórnarandstöðunnar gagnvart því sem stjórnarflokkarnir hafa fram að færa, en þeirra athygli er oft víðs fjarri þegar þingmál stjórnarandstæðinganna eru til umfjöllunar. En það er auðvitað með ólíkindum að þetta þingmál Kvennalistans skuli hafa farið fram hjá öllum hv. flm. því að þar eru í hópi tveir fyrrv. heilbrigðisráðherrar sem hefðu átt að kynna sér þetta þingmál og taka vel og vandlega eftir því.

Ég sagði að þetta þingmál væri hliðstætt og samhljóma því frv. sem flutt var af þingkonum Kvennalistans undir forustu Önnu Ólafsdóttur Björnsson sem þá sat á þingi, en það er vissulega blæbrigðamunur þarna á. Í því frv. var lagt til að það yrðu starfandi trúnaðarmenn sjúklinga við sjúkrahús sem yrðu talsmenn sjúklinga og aðstandenda þeirra gagnvart sjúkrahúsum og heilbrigðisyfirvöldum. Þeir mundu afla upplýsinga fyrir þá og greiða úr spurningum. Og trúnaðarmaður skyldi efla samvinnu milli starfsfólks heilbrigðisstétta, sjúklinga og aðstandenda þeirra og fleira er talið upp sem kannski ekki er ástæða til að tíunda frekar en mjög nauðsynlegt er að þeir sem fjalla um þetta þingmál í nefnd viti af þessu þingmáli og hafi það til samanburðar. Það var ítrekað flutt eins og áður segir og var breytt smám saman, m.a. í samræmi við ábendingar sem fram komu frá starfsfólki sjúkrahúsa því að þetta var unnið nokkuð í samvinnu við þá. Mig langar til upplýsingar aðeins að vitna í greinargerðina með þessu þingmáli, með leyfi virðulegs forseta. Þar stendur m.a.:

,,Eins og skipulagi sjúkrahúsa er nú háttað þykir mörgum, bæði starfsfólki stofnana, sjúklingum og aðstandendum þeirra að heppilegt væri að koma á einhvers konar kerfi trúnaðarmanna fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, líkt og trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum. Starfssvið þessara aðila yrði án efa mjög vítt og mundi þurfa að mótast í samvinnu sjúklinga, aðstandenda þeirra og starfsfólks sjúkrahúsa. Hlutaðeigandi yrði ætlað annað hlutverk en það sem þegar er í höndum félagsráðgjafa og presta sjúkrahúsa, m.a. að leita svara við spurningum sjúklinga og aðstandenda þeirra um læknisfræðilega meðferð, liðsinna sjúklingum og aðstandendum þegar þeim þykir skorta skýringar eða upplýsingar um læknismeðferð eða aðrar ákvarðanir sem teknar eru um málefni þeirra. Einnig væri það hlutverk trúnaðarmanns að vera talsmaður sjúklinga og aðstandenda þeirra í öllum þeim margvíslegu málum sem upp kunna að koma í mannlegum samskiptum á sjúkrahúsum. Þar koma oft upp viðkvæm mál þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir. Slíkt reynir mjög á fólk, bæði líkamlega og andlega.

Á nokkrum sjúkrahúsum er nú þegar vísir að slíkri starfsemi. Dæmi er um að geðhjúkrunarfræðingar hafi það hlutverk að styðja sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk sjúkrahúss og hefur það gefist mjög vel. Þessi þjónusta er þó takmörkuð við þá sjúklinga og aðstandendur sem sérstök ástæða þykir til að sinna.``

Ég minni á þetta við 1. umr. og það dregur ekkert úr stuðningi mínum við það þingmál sem hér er komið fram komið og ég tel allra góðra gjalda vert og vona að fái vandaða umfjöllun í nefnd. Ég tel að það væri vel þess virði að gera eins og sagt er í niðurlaginu, að starfi af þessu tagi verði komið á fót t.d. við Ríkisspítalana til reynslu.