Umboðsmenn sjúklinga

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:35:47 (165)

1995-10-10 15:35:47# 120. lþ. 6.8 fundur 25. mál: #A umboðsmenn sjúklinga# þál., Flm. ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka öllum þeim sem hafa tekið til máls hér í dag um þetta mikilvæga mál. Um leið og ég fagna því og tek undir gagnrýni hv. þm. Kristínar Halldórsdóttir vil ég segja þetta: Ég vona að okkur verði virt það til vorkunnar að þetta mál hafi haft á sér annan blæ og þess vegna höfum við ekki tengt það svo beint við fyrra mál Kvennalistans fyrr en okkur var bent á það. Við tökum þær athugasemdir að sjálfsögðu fyllilega til greina. Ég fagna enn fremur stuðningi þingmanna Kvennalistans við þetta mikilvæga mál.

Það hefur verið drepið á ýmis atriði sem hafa verið ákaflega mikilvæg. Mig langar til þess að koma að umfjöllun um eitt þeirra sem er Tryggingastofnun ríkisins og samskipti sjúklinga og öryrkja við þá stofnun. Það er rétt sem hér hefur komið fram að kærumálum fjölgar ört gagnvart Tryggingastofnun og er ástæða til að staldra við meðferð þeirra mála og gott að þetta skuli vera rætt í þessu samhengi og í samhengi við réttindi sjúklinga almennt. Tryggingaráð á lögum samkvæmt að vera úrskurðaraðili um ágreiningsmál við Tryggingastofnun ríkisins. En svo er málum einnig háttað þar innan veggja að tryggingaráð er ekki bara úrskurðaraðili heldur fjallar tryggingaráð að verulegu leyti um samskiptamál sjúklinga við stofnunina og er í rauninni ákvörðunaraðili í mörgum mjög mikilvægum málum sem sjúklingar beina til Tryggingastofnunar. Þannig hefur tryggingaráð tekið sér tvíþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að ákveða með hvaða hætti Tryggingastofnun á að svara viðskiptavinum stofnunarinnar og í öðru lagi ef sjúklingar og þeir sem leita þangað sætta sig ekki við þá afgreiðslu mála er tryggingaráð jafnframt úrskurðaraðili í málinu. Það hljóta allir að sjá að þetta eru í hæsta máta mjög óeðlileg vinnubrögð. Ég fagna því að þetta hafi komið til umræðu í dag þannig að hið háa Alþingi verði meðvitað um þetta óréttlæti og þá einkennilagu réttarstöðu sem sjúklingar eru settir í gagnvart þessari mikilvægu stofnun.

Mig langar til að taka undir orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um mikilvægi þess að skoða hvort ekki væri rétt að umboðsmaður sjúklinga væri algjörlega sjálfstæður og óháður þeirri stofnun sem hann vinnur hjá. Í starfi mínu á heilbrigðisstofnunum höfum við margoft rætt þetta atriði. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta en ég vil taka undir þetta sjónarmið og ég tel mjög mikilvægt að þetta mál fái góða umfjöllun í heilbrn. og þetta atriði verði tekið sérstaklega til umfjöllunar. Að öðru leyti held ég að ég fjalli ekki frekar um málið en endurtek þakkir mínar fyrir þær jákvæðu umræður sem hafa farið fram. En ég verð enn fremur að játa vonbrigði mín um leið og þau eru hversu fáir hv. þm. stjórnarliða eru hér viðstaddir. En ég þakka þó að einn skuli hafa treyst sér til að sitja við umræðuna.