Mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:51:58 (167)

1995-10-10 15:51:58# 120. lþ. 6.9 fundur 31. mál: #A mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja# þál., KH
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og segir í greinargerð með þessari tillögu er í rauninni óþarft að rökstyðja hana með mörgum orðum svo sjálfsögð og þörf sem öll andmæli gagnvart þessu athæfi eru. Og ég ætla ekki að hafa mörg orð um tillöguna.

Ég vildi þó nota tækifærið til þess að koma hérna á framfæri ályktun frá samráðsfundi Kvennalistans 26. ágúst 1995. Ég er hrædd um að hún hafi lítt ratað inn í fjölmiðla eins og reyndar hafa orðið örlög ansi margra ályktana og skilaboða sem við K kvennalistakonur höfum reynt að koma á framfæri í gegnum fjölmiðla, en eins og kunnugt er höfum við engan slíkan fjölmiðil sem getur verið okkar málpípa. Þessi ályktun hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

,,Samráðsfundur Kvennalistans haldinn 26. ágúst 1995 mótmælir harðlega fyrirhuguðum kjarnorkusprengingum Frakka á Mururoa í Kyrrahafi. Kvennalistinn krefst þess að frönsk stjórnvöld falli frá áformum sínum og virði vilja íbúanna á svæðinu. Jafnframt mótmælir Kvennalistinn kjarnorkusprengingum Kínverja sem eru vægast sagt dapurlegur forleikur að kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking sem háð er undir yfirskriftinni: Jafnrétti, þróun, friður. Nýafstaðnar kjarnorkusprengingar Kínverja og fyrirhugaðar tilraunir Frakka eru stórhættulegt fordæmi sem mun torvelda samninga um algert bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Það verður mun erfiðara fyrir þjóðir heims að takmarka frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna þegar ríki á borð við Frakkland og Kína haga sér með þessum hætti. Við vitum að aldrei aftur má beita kjarnorkuvopnum og því eru allar frekari tilraunir með þau ógnun við framtíð mannkynsins og lífið á jörðinni og því ber að hætta þeim þegar í stað.``

Þetta hefur sennilega ekki borist til eyrna yfirvalda í Kína né Frakklandi en það er líklegra að þeir heyri ef Alþingi Íslendinga ályktar með þeim hætti sem hér er lagt til og stuðningur okkar kvennalistakvenna kemur einnig fram í því að ein okkar er hér meðflm. Það er að mínum dómi mjög við hæfi að Alþingi álykti sérstaklega og sendi franska þinginu slíka ályktun þó að stjórnvöld séu þegar búin að senda sín mótmæli og það oftar en einu sinni, en framkoma Frakka er eins og segir hér í greinargerðinni sérstaklega ósvífin í ljósi þess að þeir framkvæma tilraunirnar í Kyrrahafi fjarri Frakklandi í mikilli óþökk eyþjóðanna á þeim slóðum. Þetta er auðvitað frekleg árás á réttindi þeirra sem næst standa til þess að fá að vera laus við þá ógn og hættu sem fylgir tilraunum af þessu tagi og manni hlýtur að detta í hug tilvitnun í fræga bók: ,,Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra`` eða kannski ætti maður að snúa því við og segja: Það sem þér viljið ekki að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér heldur ekki gjöra þeim. En það er auðvitað aldrei of seint að iðrast og bæta ráð sitt og vonandi væri tillaga eða ályktun af þessu tagi lóð á þær vogarskálar.

Ég vildi sem sagt ítreka stuðning okkar. Ég tel brýnt að þessi tillaga komist sem fyrst til umfjöllunar í hv. utanrmn. og fái þar vonandi bæði fljóta meðferð og einlægan stuðning.