Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:21:10 (200)

1995-10-11 14:21:10# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir fsp. til félmrh. um tilraunasveitarfélög og spyr hvað líði samningum við þau fjögur sveitarfélög sem hafa óskað eftir því að vera tilraunasveitarfélög og yfirtaka þjónustu við fatlaða. Þessi sveitarfélög eru: Reykjavík, Akureyri, Vestmannaeyjar og Vesturbyggð. Telur hæstv. ráðherra að samningar um tilflutning á þjónustu við fatlaða verði frágengnir í öllum sveitarfélögunum fjórum þann 1. jan. 1996 eða eru einhverjar þær blikur á lofti sem geta leitt til þess að það markmið náist ekki? Og ef svo er, á hverju stranda þá samningar?

Því er ekki að leyna að álit margra sem að þessum málefnum starfa er það að ef af tilflutningi þessarar þjónustu á að verða um áramótin, verða samningar að liggja fyrir nú á allra næstu dögum og hefðu í raun þurft að hafa legið fyrir fyrir nokkru síðan. Því er afar brýnt að fá svör við því hverju fólk má búast við, á hverju það megi eiga von 1. jan. nk. Það er brýnt bæði fyrir skipuleggjendur þjónustunnar og ekki síst fyrir notendur hennar, þ.e. þá fatlaða sem í umræddum sveitarfélögum búa.

Á undanförnum fjórum árum hefur verið unnið markvisst að því af stjórnvöldum og hagsmunasamtökum fatlaðra að færa sem flest velferðarverkefni sem tengjast fötluðum til sveitarfélaganna. Við höfum talið þetta vera hluta af því jafnrétti sem við stefnum að hér í samfélaginu og teljum það eðlilegt að sveitarfélög standi að velferðarþjónustu við þennan hóp íbúa eins og aðra. Því er okkur það brýnt að það verði ekkert gert sem geti lagt stein í götu þeirrar þróunar sem við höfum vonast eftir að sjá.

Ég endurtek spurningu mína: Eru einhverjar þær blikur á lofti sem gætu leitt til þess að þessi mál gengju ekki eftir?