Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:27:33 (203)

1995-10-11 14:27:33# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu og stóru máli. Það er að sönnu rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að áhyggjur eru nokkrar af því hvort raunverulegur vilji sé af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að hrinda þessu stóra máli í framkvæmd. Því vil ég þakka það að svo virðist sem hæstv. félmrh. sýni raunverulegan áhuga og ætli að klára það mál.

Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að nefna það hér í þessari umræðu, þó að það eigi ekki við þessa tilteknu fyrirspurn, að opinberar hugmyndir heilbrrh. um fyrirkomulag heilsugæslu á landinu ganga fullkomlega þvert á anda laganna um reynslusveitarfélög sem kveða á um að flytja verkefni á vettvangi heilsugæslu til reynslusveitarfélaga. Nýjar hugmyndir ráðherrans ganga hins vegar í allt aðrar áttir, nefnilega að auka miðstýringu þar sem sveitarfélögin sem slík koma hvergi nærri. Það er kannski ekki síst á þeim vettvangi sem maður hafði áhyggjur, en það er þó fagnaðarefni að einhver hæstv. ráðherra Framsfl. ætlar að fylgja lögum í landinu.