Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:33:17 (207)

1995-10-11 14:33:17# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Málefni fatlaðra fá á næstu fjárlögum samkvæmt fjárlagafrv. 2 milljarða 99 millj. og 200 þús. Það er hækkun um 183 millj. og það kann að vera sú stefnubreyting sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að tala um. Það er hækkað milli ára um 10% (Gripið fram í.) til málefna fatlaðra. Það hækkar um 10% og það er meira en verðbólgan. Af þessum 183 millj., sem hækkunun er, fara 65,5 millj. beinlínis út af yfirtökunni á Kópavogshælinu. Það er hægt að segja að það sé millifærsla frá heilbrrn.

Ég er ráðinn í því að reyna að klára þetta verkefni, þ.e. ég get náttúrlega ekkert fullyrt um það að samningar takist en það er ekkert sem hefur komið fram sem ég veit um sem bregður fæti fyrir það og einmitt í því skyni --- af því að tíminn er að styttast --- er ég að setja aukinn kraft í verkefnið og réði í morgun fyrrv. sveitarstjóra á Súðavík, Jón Gauta Jónsson, sem við í félmrn. þekkjum af einstökum dugnaði til þess að aðstoða okkur við þetta verkefni á næstu vikum.

Mér brá nokkuð við að heyra fregnir af því að Reykjavíkurborg ætlaði ekki að ganga til samninga. Ég bíð eftir svörum frá forráðamönnum Reykjavíkurborgar. Ég tel að það séu bærir aðilar til þess að svara fyrir sig þar og þurfi ekki að leita til hv. 9. þm. Reykv. um það efni. Ég ætla bara að biðja hv. þm. jafnvel þó að þeir séu veiðibráðir að vera ekki að reyna að sprengja þetta verkefni upp.