Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 15:39:22 (274)

1995-10-12 15:39:22# 120. lþ. 9.4 fundur 59. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (endurbætur og viðhald á eigin húsnæði) frv., Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum. Flm. þessa frv. eru undirritaður og hv. þm. Sturla Böðvarsson. Frv. er svohljóðandi:

1. gr. Við B-lið 30. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Kostnað við endurbætur og viðhald á eigin húsnæði, enda nemi þessi kostnaður að lágmarki 100.000 kr., og skal endurgreiðslan vera 10% af þeim kostnaði sem ráðist hefur verið í.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ég mun ekki fara, virðulegi forseti, yfir greinargerðina. Ég tel að hún skýri sig sjálf, en mun aðeins fara örfáum orðum um ástæðurnar fyrir því að þetta mál er flutt.

Þjóðarauður Íslendinga er að langmestu leyti bundinn í íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Þetta íbúðar- og atvinnuhúsnæði er metið að núvirði á um 1.200 milljarða kr. Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir þá eru þessar eignir hlutfallslega ungar og eftir mikið byggingarskeið sem hófst eftir síðari heimsstyrjöldina hefur viðhaldsþörfin farið vaxandi. Það hefur komið fram í úttektum sem gerðar hafa verið á viðhaldsþörf húsnæðis á Íslandi að því fer víðs fjarri að viðhaldsþörfinni sé sinnt. Með öðrum orðum, þessi þjóðarauður Íslendinga er að grotna niður og það á sama tíma og verkefni byggingariðnaðarins eru ónóg. Það er atvinnuleysi í greininni, en það er einnig mikið um að viðhaldsverkum í henni sé sinnt á svörtum markaði sem þýðir í raun að ríkissjóður verður af tekjum. En það hefur einnig þá afleiðingu að þeir aðilar sem stunda sína atvinnustarfsemi í samræmi við lög og reglur, borga skatta og skyldur af sinni atvinnustarfsemi, njóta verri stöðu í samkeppni við svarta markaðinn, eins og er náttúrlega lögmál í öllum slíkum óheiðarlegum viðskiptum.

Það er því ekki nóg með það að þeir sem reka sína byggingarstarfsemi í samræmi við lög og reglur búi nú við ónóg verkefni, heldur eru þeir einnig í erfiðri samkeppnisstöðu vegna þess að mikill hluti af viðhaldsverkefnum er á svörtum markaði. Það er því mjög mikils virði ef hægt er með ásættanlegum aðferðum að ýta undir viðhaldsverkefni þannig að þessu brýna vandamáli verði sinnt, en jafnframt að reyna að kalla þessa starfsemi upp á yfirborðið ef svo má að orði komast.

Hér er um mikla fjármuni að ræða. Ef áætlaður viðhaldskostnaður er um 2% af stofnverði að jafnaði, þá ætti árlegur kostnaður af viðhaldi húsnæðis landsmanna að vera um 24 milljarðar og þar af má áætla að viðhaldskostnaður húsnæðis í einkaeign sé á bilinu 14--15 milljarðar. Ef það væri hægt að örva þessa starfsemi með skattalagabreytingum, þá væri hægt að kalla fram inn á þetta svið atvinnulífsins milljarða til að skapa verkefni. Viðhaldsmarkaðurinn er nú áætlaður á bilinu 5--7 milljarðar kr. en eins og ég sagði áðan er þörfin sennilega nær því að vera helmingi meiri.

Það mál sem hér er lagt fram varðar þar af leiðandi afslátt af sköttum vegna viðhaldsverkefna. Eins og áður kom fram er hér um að ræða þann hluta byggingariðnaðarins sem er talið að skili sér einna verst í framtöldum tekjum. Það má reikna með því að af hverri milljón sem til viðhaldsvinnu er varið falli til ríkissjóðs sem skatttekjur um 250 þús. kr. Ef afslátturinn getur numið um 100 þús. kr. á milljón, þá mundi ríkissjóður ekki skaðast af slíku máli þegar á heildina er litið, ef tillagan leiðir til betri skattskila. Og ég legg áherslu á þetta vegna þess að þeir flokkar sem styðja ríkisstjórnina hafa einsett sér að draga ekki úr tekjum ríkissjóðs. Þessi tillaga miðar ekki að því að rýra tekjur ríkissjóðs heldur að kalla upp á yfirborðið viðskipti sem hafa því miður verið um of á svörtum markaði og bæta þar af leiðandi tekjustreymi til ríkissjóðs á sama tíma og mönnum er gert auðveldara að sinna brýnum viðhaldsverkefnum.

Virðulegi forseti. Um leið og ég lýk máli mínu vil ég leggja til að að lokinni 1. umr. verði þessu máli vísað til hv. efh.- og viðskn.