Birting upplýsinga um kjaramál

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:12:30 (282)

1995-10-16 15:12:30# 120. lþ. 10.1 fundur 34#B birting upplýsinga um kjaramál# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Það er svo, virðulegur forseti, að einn af flokksbræðrum hv. þm. hefur þegar á hinu háa Alþingi lagt fram fyrirspurn, sem er að finna á þskj. 57, og varðar annan lið þess er hv. þm. spurðist fyrir um, þ.e. um kjarasamningana. Ég mun að sjálfsögðu eins og lög gera ráð fyrir svara þeirri fyrirspurn þannig að ég hygg að okkur gefist tækifæri til þess síðar að ræða um kjarasamningana enda eru þær fyrirspurnir sem hv. þm. var með hér áðan innifaldar í þeirri fyrirspurn sem þar kemur fram.

Varðandi greiðslur til einstakra embættismanna ætla ég ekki að útiloka það að hægt sé að setja fram lista þar sem ekki koma fram nöfn, eins og hv. þm. benti á að sé auðvitað ekki viðeigandi, og reyna með þeim hætti að gefa til kynna hvaða starfsstéttir hjá hinu opinbera fá hæst laun. En þá ber þess að geta að starfsmannaskrifstofa ríkisins, fjmrn., greiðir aðeins út þau laun sem ríkissjóður greiðir en það geta að sjálfsögðu verið hærri laun sem viðkomandi starfsmenn fá, til að mynda ef þeir sitja í bankaráðum, svo tekið sé dæmi, eða nefndum sem eru utan við A- og B-hluta ríkissjóðs.