Norsku- og sænskukennsla

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:21:52 (290)

1995-10-16 15:21:52# 120. lþ. 10.1 fundur 37#B norsku- og sænskukennsla# (óundirbúin fsp.), SF
[prenta uppsett í dálka]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Foreldrar barna sem stunda nám í norsku og sænsku á grunnskólastigi eru nú mjög uggandi vegna þeirra frétta að ekki sé ráðgert að veita fé til þessarar kennslu á fjárlögum 1996. Því spyr ég hæstv. menntmrh. hvort það sé ætlunin að hætta norsku- og sænskukennslu í grunnskólanum eða mun fjárveitingar að vænta til þessa verkefnis.

Það er ljóst að um 20 ára skeið hefur verið boðið upp á slíka kennslu í stað dönskukennslu. Það hefur ekki verið um algerlega frjálst val nemenda að ræða. Það hafa verið sett skilyrði fyrir því að þeir hafi haft grunn í þessum tungumálum. Um þessar mundir eru um 400 nemendur í þessu námi og hér er því um mjög stórt mál að ræða. Foreldrar þessara barna munu halda fund í kvöld í Norræna húsinu vegna þess að þau óttast þetta mjög og sambandsþing Norræna félagsins ályktaði um þetta mál á fundi sínum í gær en í þeirri ályktun er yfirvofandi brottfalli norsku- og sænskukennslu mótmælt.

Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, þá er óljóst hver eigi að borga fyrir áframhaldandi kennslu, hvort það eigi að taka fé af ráðuneytinu eða af fræðslustjórum landsins eða hvort það eigi að greiða þetta yfirleitt, en mér skilst að þetta sé um 8 millj. kr. á landsvísu sem þessi kennsla kostar. Nú þegar ljóst er að ríkið þarf að semja við sveitarfélögin um fjármagn vegna tilflutnings grunnskólans til sveitarfélaganna tel ég mjög óæskilegt að ekki sé tryggilega gengið frá fjármagni í áframhaldandi sænsku- og norskukennslu. Og því spyr ég: Er ætlunin að hætta kennslu í norsku og sænsku alveg eða minnka hana verulega á næsta ári? Ef svo er ekki, hvernig á þá að tryggja fé til áframhaldandi kennslu?