Norsku- og sænskukennsla

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:23:50 (291)

1995-10-16 15:23:50# 120. lþ. 10.1 fundur 37#B norsku- og sænskukennsla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það eru engin áform uppi um það að hætta kennslu í sænsku og norsku. Þvert á móti hefur verið tekin ákvörun um það eins og menn vita að danska verði áfram fyrsta erlenda tungumálið sem lært er í íslenskum skólum og á þeirri forsendu hefur verið veitt kennsla í norsku og sænsku og það eru ekki áform uppi um að hætta því.

Varðandi kostnað við þessa kennslu, þá er það rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að um það mál hafa verið viðræður á milli fræðsluyfirvalda og menntmrn. og tengst fjárveitingum. Það voru fundir um það mál fyrir nokkrum mánuðum og rætt um það hvernig þessu yrði best fyrir komið á þessum vetri. Yfirleitt hefur þetta gengið upp, tel ég, í fræðsluumdæmunum að leysa úr og sinna þessu verkefni eins og ber. Hér hins vegar á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík sérstaklega hafa komið upp vandamál vegna fjárskorts. Ég lít þannig á að eftir viðræður mínar við fræðslustjórann í Reykjavík og aðkomu menntmrn. að málinu, þá hafi verið leyst úr þessum vanda núna í vetur.

Varðandi framhaldið er það rétt sem fram kom hjá fyrirspyrjanda að það er verið að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna og ég tel sjálfsagt og eðlilegt að kostnaður við þessa kennslu verði tekinn inn í þá samninga sem fara fram milli ríkisins og sveitarfélaganna um tilflutning á fjármunum sem því tengjast.