Kjaradómur og kjaranefnd

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:16:05 (329)

1995-10-16 18:16:05# 120. lþ. 12.2 fundur 85. mál: #A kjaradómur og kjaranefnd# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af þessari þáltill. Hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti þeirri skoðun sinni hér í umræðum í vor að hann vildi frekar fara þá leið að Alþingi ákvarðaði sjálft sín laun og tæki hina pólitísku ábyrgð. En ég var að velta fyrir mér ákveðnu framkvæmdaatriði varðandi þessa tillögu, ef maður gæfi sér það að það væri meiri hluti á hinu háa Alþingi til þess að breyta nú til og fara aftur inn á þá braut sem hér var farin á árunum áður þegar Alþingi úrskurðaði sjálft um sín laun og allt varð vitlaust hvert einasta skipti sem það ákvað eitthvað, rétt eins og verður nú þegar Kjaradómur á í hlut. Það sem ég var nú að velta fyrir mér var það ef Alþingi færi að úrskurða um laun þeirra sem Kjaradómur úrskurðar um nú, hvort það stríði ekki gegn stjórnarskránni. Og þá verður mér hugsað til dómara, hæstaréttardómara. Samræmist það stjórnarskránni og kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins, ef Alþingi færi að ákvarða laun hæstaréttardómara og dómara, auk þess að ákveða sín eigin laun? Nú veit ég ekki hvernig þeim málum var háttað áður en Kjaradómur kom til sögunnar, hverjir það voru sem ákváðu laun hæstaréttardómara og sem sagt annarra dómara í landinu, vegna þess að það er auðvitað grundvallarhluti af skipan okkar stjórnkerfis að dómsvaldið skuli vera óháð og það er hlutverk Alþingis að hafa eftirlit bæði með dómsvaldinu og framkvæmdarvaldinu og auðvitað dómsvaldins að fylgjast með því að löggjafinn og framkvæmdarvaldið fari að lögum og rétti. En ég velti því fyrir mér hvort þetta gangi upp með þessum hætti. Ég dreg það stórlega í efa.

Ég held að það sé vissulega ástæða til þess að fá fram þessa umræðu sem hér er verið að vekja með þessari tillögu og að fara í gegnum það hvernig með þessi mál skuli farið, en ég held þó að ef ekki er hægt að fela nokkuð óháðum dómstóli að fara með þessi mál, þá veit ég nú ekki hverjum á að fela þetta. Ég held að það yrði alla vega eins og staðan er núna, að þá væri það nánast óbærilegt fyrir Alþingi að eiga að bera ábyrgð á sínum launahækkunum. Ég veit ekki með hvílíkum ósköpum það myndi enda, en þannig er tilhögunin í mörgum ríkjum. Það er þannig t.d. í Englandi. Þar er það þingið sjálft sem að ákveður sín laun og við höfum verið að lesa um það í blöðum að undanförnu að þýska þingið hefur verið að taka ákvarðanir um launahækkanir til þýskra þingmanna, sem mér skilst nú reyndar samkvæmt síðustu fréttum að efri deild þar væri að fella eða væri búin að fella.

Ég vildi einungis vekja máls á þessu atriði vegna þess að það er ekkert einfalt hvernig með þessi mál skuli farið og þetta er ekki bara spurning um hina pólitísku ábyrgð og hver eigi að bera hana. Ég er í sjálfu sér sammála þeirri hugsun að auðvitað á Alþingi að bera þarna ákveðna ábyrgð eins og að það auðvitað gerir. Það auðvitað ber ábyrgð á þessum málum. En hvaða aðrar leiðir eru færar í þessu máli það treysti ég mér ekki til að segja um á þessari stundu, en það er virkilega ástæða til þess að skoða þær leiðir sem að önnur þing hafa farið.