Kjaradómur og kjaranefnd

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:29:44 (332)

1995-10-16 18:29:44# 120. lþ. 12.2 fundur 85. mál: #A kjaradómur og kjaranefnd# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg sagt út af fyrir sig að mér finnst sú hugsun sem hv. þm. reifar vera heldur geðfelld. Að þingmenn eigi að bera ábyrgð á þessu sjálfir. En þegar maður les sér til um þær umræður sem hafa átt sér stað þegar að sá veruleiki var, þegar þingmenn báru ábyrgð á þessu sjálfir, þá verður maður hikandi vegna þess að gagnrýnin í þjóðfélaginu var gríðarlega mikil á það kerfi. Þar væru menn dómarar í eigin sök og hversu góðir og réttsýnir menn sem þeir væru þá gerðist það um þá eins og alla aðra, að þeim færi ekki vel að vera dómarar í eigin sök. Sú hugsun sem hv. þm. reifar hins vegar fellur vel að minni hugmyndafræði um að menn eigi að bera ábyrgð sjálfir á öllum slíkum gjörðum. Við sjáum Kjaradóm. Í Kjaradómi reynum við að setja lög og reglur um það með hvaða hætti hann eigi að vinna. Eftir að Kjaradómur hefur fellt úrskurð sinn þurfum við að gá hvort þeir hafa farið nákvæmlega að þessum lögum. Þá tölum við rétt eins og lögin séu svo skýr og glögg að við þyrftum engan Kjaradóm, skrifstofan gæti fært þetta út. Ef lögin eru svo skýr og glögg að það þurfi ekkert mat þurfum við engan Kjaradóm, þá mundi skrifstofan færa þetta út. En það verður alltaf mat og þá lendum við í vandræðunum. Þá kemur upp þessi ólga í þjóðfélaginu.

En varðandi það sem ég sagði að menn deildu ekki við dómara þá hygg ég að ég hafi verið að svara þá þegar Hæstiréttur skrifaði mér á sínum tíma bréf sem forsrh. og fól mér eins og það var orðað eða nokkurn veginn efnislega a.m.k., að skaffa peninga til að borga þá yfirvinnu sem þeir ættu inni lögum samkvæmt. Þá hugsaði ég með mér --- þó að ég hafi nú lokið mínu lögfræðiprófi 1976 og búinn að gleyma mörgu af því sem ég lærði þá og veit ekki hversu vel ég lærði það þá --- að ég ætla ekki að segja að Hæstiréttur hafi minna vit á þessu en ég svo ég tók mið af því. En kannski hefur meira að segja Hæstiréttur ekki verið góður dómari í eigin sök þá.