Kjaradómur og kjaranefnd

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:31:57 (333)

1995-10-16 18:31:57# 120. lþ. 12.2 fundur 85. mál: #A kjaradómur og kjaranefnd# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í langa umræðu um þetta mál. Ég hef á tilfinningunni að við séum að gera mjög einfalt mál flókið. Það er ekki mjög flókið þegar verið er að stimpla inn í launataxtana almennt þær kjarabætur sem samið er um á milli fjmrn. og almenns launafólks sem starfar á vegum ríkisins. Og það er ekkert flókið að stimpla þær sömu breytingar inn í launataxta þingmanna. Það eina sem ég er að óska eftir að menn geri er að reyna að vera sjálfum sér samkvæmir. Ég vil meina að hæstv. ríkisstjórn sé ekki sjálfri sér samkvæm í þeirri kjarastefnu sem hún þröngvar upp á almenning í landinu og því sem hún lætur viðgangast gagnvart sjálfri sér, hæstv. ráðherrum, alþingismönnum, embættismönnum, dómurum sem hafa fengið stimplað inn í sín launaumslög og inn í sín kjör tugþúsundir króna á sama tíma og öðrum hefur verið skammtað úr hnefa. Þetta er mergurinn málsins. Þetta er mjög einfalt mál.